logo-for-printing

01. september 2020

Viðskiptaafgangur 7 ma.kr. á öðrum ársfjórðungi – hrein staða við útlönd jákvæð um 838 ma.kr.

Bygging Seðlabanka Íslands

Á öðrum ársfjórðungi 2020 var 7 ma.kr. afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd samanborið við 16,7 ma.kr. afgang ársfjórðunginn á undan. Halli á vöruskiptajöfnuði var 9,2 ma.kr. en afgangur á þjónustujöfnuði var 3,7 ma.kr. Frumþáttatekjur skiluðu 19,2 ma.kr. afgangi en rekstrarframlög 6,8 ma.kr. halla (sjá nánar í töflu í meðfylgjandi skjali).

Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit yfir greiðslujöfnuð við útlönd á öðrum ársfjórðungi 2020 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Viðskiptaafgangurinn var 9,2 ma.kr. minni en á sama ársfjórðungi árið áður. Það skýrist aðallega af óhagstæðari þjónustuviðskiptum um sem nemur 48,4 ma.kr. Munar þar mest um umtalsvert lægra verðmæti útfluttrar þjónustu eða sem nemur 99 ma.kr. Á móti vegur að innflutt þjónusta minnkaði um 50,6 ma.kr. Vöruviðskipti voru hagstæðari sem nemur 34,3 ma.kr. Það skýrist að mestu af 47,9 ma.kr. minni innflutningi miðað við árið á undan en útflutningur var 13,6 ma.kr. minni. Frumþáttatekjur voru 4,7 ma.kr. hagstæðari og halli rekstrarframlaga var lítillega minni eða um 0,2 ma.kr.

Hrein staða við útlönd var jákvæð um 838 ma.kr. eða 28,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 143 ma.kr. eða 4,9% af VLF á fjórðungnum. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.475 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.636 ma.kr. Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu þjóðarbúsins um 22 ma.kr. á fjórðungnum en erlendar eignir jukust um 83 ma.kr. vegna fjármagnsviðskipta og skuldir um 61 ma.kr. Virði eigna og skulda jókst nokkuð vegna gengis- og verðbreytinga á ársfjórðungnum, en í heildina leiddu þær til 137 ma.kr. hækkunar á hreinni erlendri stöðu þjóðarbúsins. Verð á erlendum verðbréfamörkuðum hækkaði um 18,8% og á innlendum hlutabréfamarkaði um tæp 20%. Gengi krónunnar stóð í stað gagnvart helstu gjaldmiðlum miðað við gengisskráningarvog.

Sjá hér nánar í pdf-skjali: Viðskiptaafgangur var 7 ma.kr. á öðrum ársfjórðungi 2020 – hrein staða við útlönd jákvæð um 838 ma.kr. 

Frétt nr. 28/2020
1. september 2020


Til baka