28. september 2020
Áhrif ákvörðunar FATF á starfsemi eftirlitsskyldra aðila metin öðru sinni
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitið) gerði nýlega könnun á því hvort ákvörðun FATF, alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, frá því í október 2019, hefði haft áhrif á starfsemi eftirlitsskyldra aðila og ef svo væri hver áhrifin hefðu verið. FATF ákvað þá sem kunnugt er að setja Ísland á lista yfir ríki sem væru samvinnufús og þar sem aðgerðaáætlun um endurbætur væri í farvegi.Könnunin fór fram í júlí síðastliðnum og var þetta í annað skiptið sem Fjármálaeftirlitið kallaði eftir upplýsingum af þessu tagi en fyrri könnun var gerð í lok síðasta árs. Í bæði skiptin var beðið um svör frá 16 eftirlitsskyldum aðilum, þ.e. fjórum viðskiptabönkum, þremur greiðsluþjónustuveitendum, fjórum vátryggingafélögum, þremur lífeyrissjóðum, Kauphöll Íslands og Nasdaq verðbréfamiðstöð.
Líkt og áður var spurt hvort ákvörðun FATF hefði haft áhrif á starfsemi viðkomandi, m.a. hvort viðskiptum við aðilann eða viðskiptavini hans hefði verið sagt upp, hvort viðskiptum hefði verið seinkað og hvort óskað hefði verið eftir frekari gögnum frá aðilanum í tengslum við aukna áreiðanleikakönnun.
Af svörum eftirlitsskyldra aðila má draga þá ályktun að áhrif af ákvörðun FATF séu enn sem komið er mjög takmörkuð og virðast þau ekki hafa aukist frá því í desember síðastliðnum. Helst hafa aðilar þurft að skila frekari gögnum eða upplýsingum vegna aukinnar áreiðanleikakönnunar bæði þegar um hefur verið að ræða ný viðskiptasambönd sem og vegna eldri viðskiptasambanda. Í svörum nokkurra aðila kom fram að þeir teldu að ástæðuna mætti frekar rekja til aukinna krafna í regluverki sem og meiri árvekni almennt gagnvart peningaþvætti en til ákvörðunar FATF. Í nokkrum tilvikum hefur óvirkum viðskiptasamböndum eftirlitsskyldra aðila verið sagt upp. Greiðslum hefur í einhverjum tilvikum verið hafnað en rétt er að taka fram að það er í mjög litlum mæli. Einnig eru dæmi um að móttöku eða sendingu á símgreiðslum hafi seinkað og/eða að ferlið hafi í einhverjum tilvikum tekið lengri tíma en vanalega.
Eldri frétt: Áhrif ákvörðunar FATF á starfsemi eftirlitsskyldra aðila.