logo-for-printing

19. október 2020

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2020

IMF
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tók þátt í ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og tengdum fundum dagana 12.-18. október. Seðlabankastjóri er fulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. Board of Governors) sem er æðsta ráð stofnunarinnar. Þá sátu seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, fund fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. International Monetary and Financial Committee, IMFC) sem áheyrnarfulltrúar. Seðlabankastjóri og aðrir fulltrúar bankans áttu einnig fundi með yfirstjórn og sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fulltrúum fjármálastofnana. Líkt og vorfundur fjárhagsnefndarinnar í apríl sl. var ársfundurinn og tengdir fundir með fjarfundarsniði.

Fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins heldur fundi tvisvar á ári þar sem sjóðurinn kynnir mat sitt á ástandi og horfum í heimsbúskapnum auk þess sem framkvæmdastjóri sjóðsins kynnir ráðgjöf hans varðandi alþjóðlega stefnumótun (e. Global Policy Agenda). Lesetja Kganyago, seðlabankastjóri Suður-Afríku, hefur farið fyrir fjárhagsnefndinni síðastliðin þrjú ár en lætur senn af formennsku. Í ályktun nefndarinnar (e. IMFC Communiqué) kom fram að alþjóðlegur efnahagsbati væri í sjónmáli, studdur af fordæmalausum efnahagsaðgerðum. Batinn væri þó ójafn og háður mikilli óvissu. Hætta væri á að faraldurinn setti mark sitt á heimshagkerfið í formi minni framleiðnivaxtar, hærri skuldastöðu, aukinnar áhættu í fjármálageira og aukinnar fátæktar og ójafnaðar. Aðildarlöndin hvöttu til að allra leiða yrði leitað til að endurvekja tiltrú á efnahagslífið, vernda störf og auka hagvöxt. 

Fulltrúi kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda var að þessu sinni Jan Tore Sanner, fjármálaráðherra Noregs. Í yfirlýsingu kjördæmisins (e. IMFC Statement) var alþjóðlegu samstarfi um aukið aðgengi að prófum, meðferðum og bóluefni við Covid-19 sérstaklega fagnað. Einnig var undirstrikað að alþjóðleg samvinna, opnir markaðir og viðskipti væru undirstaða efnahagsbata, trausts og langtímahagsældar í aðildarríkjum.

Hér að neðan má finna tengla með efni frá ársfundinum:

Ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC Communiqué)

Stefnuyfirlýsing Kristalinu Georgievu, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (Global Policy Agenda, GPA)

Yfirlýsing kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC Statement)
Til baka