
19. október 2020
Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2020

Fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins heldur fundi tvisvar á ári þar sem sjóðurinn kynnir mat sitt á ástandi og horfum í heimsbúskapnum auk þess sem framkvæmdastjóri sjóðsins kynnir ráðgjöf hans varðandi alþjóðlega stefnumótun (e. Global Policy Agenda). Lesetja Kganyago, seðlabankastjóri Suður-Afríku, hefur farið fyrir fjárhagsnefndinni síðastliðin þrjú ár en lætur senn af formennsku. Í ályktun nefndarinnar (e. IMFC Communiqué) kom fram að alþjóðlegur efnahagsbati væri í sjónmáli, studdur af fordæmalausum efnahagsaðgerðum. Batinn væri þó ójafn og háður mikilli óvissu. Hætta væri á að faraldurinn setti mark sitt á heimshagkerfið í formi minni framleiðnivaxtar, hærri skuldastöðu, aukinnar áhættu í fjármálageira og aukinnar fátæktar og ójafnaðar. Aðildarlöndin hvöttu til að allra leiða yrði leitað til að endurvekja tiltrú á efnahagslífið, vernda störf og auka hagvöxt.
Fulltrúi kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda var að þessu sinni Jan Tore Sanner, fjármálaráðherra Noregs. Í yfirlýsingu kjördæmisins (e. IMFC Statement) var alþjóðlegu samstarfi um aukið aðgengi að prófum, meðferðum og bóluefni við Covid-19 sérstaklega fagnað. Einnig var undirstrikað að alþjóðleg samvinna, opnir markaðir og viðskipti væru undirstaða efnahagsbata, trausts og langtímahagsældar í aðildarríkjum.
Hér að neðan má finna tengla með efni frá ársfundinum:
Ályktun fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC Communiqué)
Stefnuyfirlýsing Kristalinu Georgievu, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (Global Policy Agenda, GPA)
Yfirlýsing kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC Statement)