logo-for-printing

19. október 2020

Nýtt millibankagreiðslukerfi tekið í notkun í vikulokin

Bygging Seðlabanka Íslands

Nýtt millibankagreiðslukerfi verður tekið í notkun hér á landi að kvöldi föstudagsins 23. október nk. Stór hluti allra fjármálafærslna einstaklinga og fyrirtækja í landinu, t.d. með debetkortum og almennum millifærslum á milli reikninga, fer um kerfið sem þjónustar banka og fjármálastofnanir. Nýja kerfið, sem er í eigu Seðlabanka Íslands, tekur við hlutverki svokallaðs stórgreiðslukerfis Seðlabankans og jöfnunarkerfis Greiðsluveitunnar sem jafnframt er í eigu bankans.

Hlutverk hins nýja millibankagreiðslukerfis verður annars vegar að gera upp stórgreiðslur, þ.e. greiðslur sem nema 10 m.kr. eða hærri fjárhæðum, í rauntíma á stórgreiðslureikningum bankastofnana í Seðlabankanum og hins vegar að jafna smágreiðslur, þ.e. greiðslur undir 10 m.kr., á milli bankastofnana. Jöfnunarfjárhæðir úr þessum viðskiptum eru svo gerðar upp á stórgreiðslureikningum tvisvar á sólarhring (á virkum dögum).

Á síðasta ári var veltan í stórgreiðslukerfinu 17 þúsund milljarðar króna í um 118 þúsund greiðslufyrirmælum. Í jöfnunarkerfinu var veltan rúmlega fjögur þúsund milljarðar króna og færslufjöldinn ríflega 68 milljónir.

Nýja millibankagreiðslukerfið hefur verið í undirbúningi frá árinu 2015. Gerð þess var boðin út og hlaut suður-afríska fyrirtækið Perago verkið. Perago er dótturfélag SIA, sem er ítalskt félag. Bæði fyrirtækin hafa tekið þátt í uppbyggingu hliðstæðra kerfa í norrænum seðlabönkum.

Verkefnið hefur verið unnið í nánu samstarfi við Reiknistofu bankanna, viðskiptabankana og sparisjóði landsins.

Ástæða endurnýjunarinnar er sú að gömlu kerfin eru komin til ára sinna og þörfnuðust endurnýjunar, líkt og átt hefur við um fleiri þætti sem tengjast greiðslumiðlun í bankakerfinu hér á landi. Markmiðið með hinu nýja kerfi er að áfram verði hægt að miðla greiðslum hér á landi á skjótan, öruggan og hagkvæman hátt.

Vonast er til að innleiðingin gangi snurðulaust fyrir sig, en eins og oft á við um breytingar af þessu tagi geta komið upp hnökrar. Gerist það verður brugðist við eins fljótt og unnt er. Starfshópar á vegum Seðlabanka Íslands, Reiknistofu bankanna og væntanlegra notenda kerfisins verða í viðbragðsstöðu frá því áður en innleiðingin hefst á föstudagskvöldið og þar til henni lokið eftir næstu helgi.


Nr. 38/2020
19. október 2020


Til baka