logo-for-printing

05. nóvember 2020

Ráðið í tvær stjórnendastöður í Seðlabanka Íslands

Rannveig Júníusdóttir framkvæmdastjóri og Gísli Óttarsson áhættustjóri
Rannveig Júníusdóttir hefur verið ráðin í stöðu framkvæmdastjóra skrifstofu bankastjóra Seðlabanka Íslands. Rannveig hóf störf í gjaldeyriseftirliti Seðlabankans árið 2011, fyrst sem sérfræðingur undanþágudeildar. Hún starfaði svo sem sérfræðingur rannsóknardeildar gjaldeyriseftirlitsins frá 2012 til 2013, forstöðumaður rannsókna frá 2013 til 2016, aðstoðarframkvæmdastjóri 2015-2016 og loks framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits frá 2016 til 2019. Rannveig gegndi stöðu forstöðumanns gjaldeyrisáhættu á fjármálastöðugleikasviði frá 2019 eftir að svið gjaldeyriseftirlits var lagt niður. Hún hefur verið starfandi framkvæmdastjóri skrifstofu bankastjóra frá 8. janúar 2020. Rannveig er með BA- og MA-gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands.

Gísli Óttarsson hefur verið ráðinn í stöðu áhættustjóra Seðlabanka Íslands. Gísli var framkvæmdastjóri áhættustýringar Arion banka frá 2009 til 2020, en áður var hann forstöðumaður í áhættustýringu Kaupþings banka frá 2006 til 2008 og stjórnandi í hugbúnaðarþróun Mechanical Dynamics Inc frá 1994 til 2006. Gísli er með BS-gráðu í byggingarverkfræði frá HÍ, MS-gráðu í hagnýtri aflfræði og PhD-gráðu í vélaverkfræði frá University of Michigan, auk þess að vera með próf í verðbréfaviðskiptum.
Til baka