Breytingar á vaxtaviðmiðunum
Seðlabanki Íslands vekur athygli á nýlegri reglugerð Evrópusambandsins um fjárhagslegar viðmiðanir (reglugerð (ESB) 2016/1011, BMR), sem tekið hefur gildi innan EES. Tilgangur BMR er að efla traust á öllum tegundum fjárhagslegra viðmiðana í fjármálasamningum en kveikjan að þessum breytingum er LIBOR-hneykslið svonefnda sem sneri að kerfisbundnum tilraunum banka á fyrsta áratug þessarar aldar til að hafa áhrif á millibankavexti í eigin þágu.
Þessar nýju reglur fela í sér meðal annars að til séu aðrir valkostir en núverandi vaxtaviðmiðanir. Frá og með árslokum 2021 verður að meginstefnu til hætt að nota sk. IBOR-vaxtaviðmiðanir (LIBOR, EURIBOR, NIBOR o.s.frv.) og munu aðrar vaxtaviðmiðanir leysa þær af hólmi.
Mikilvægt er að stjórnendur og stjórnir fyrirtækja á fjármálamarkaði séu meðvitaðir um þessar breytingar og að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir fyrir árslok 2021.
Nýjar vaxtaviðmiðanir
Víða um heim hafa fjármálayfirvöld lokið vinnu og hafið birtingu nýrrar vaxtaviðmiðunar í stað „IBOR“ vaxta í þeirra umdæmi. Slíkri vinnu er ekki lokið alls staðar. Í eftirfarandi töflu má sjá heiti þeirra viðmiðana sem byrjað er að birta og taka við af „IBOR“ viðmiðunum. Fyrirkomulagið byggir víða á svipaðri aðferðafræði. Í stað tilboða í vexti verður litið til eiginlegra vaxta í viðskiptum yfir nótt milli aðila.
Vaxtaviðmiðun |
Gjaldmiðill |
Ný vaxtaviðmiðun |
Tegund |
LIBOR |
USD |
SOFR |
Yfir nótt |
LIBOR |
GBP |
SONIA |
Yfir nótt |
LIBOR |
CHF |
SARON |
Yfir nótt |
LIBOR |
EUR |
€STR |
Yfir nótt |
EURIBOR |
EUR |
€STR |
Yfir nótt |
STIBOR |
SEK |
STIBOR |
|
NIBOR |
NOK |
NOWA |
Yfir nótt |
OIBOR |
|
|
|
CIBOR |
DKK |
CIBOR |
|
CDOR |
CAD |
CORRA |
Yfir nótt |
REIBOR |
ISK |
|
|
Seðlabankinn hefur hafið, í samvinnu við viðskiptabankana, vinnu við að reikna út nýja vaxtaviðmiðun. Engar ákvarðanir hafa enn verið teknar um skráningu REIBOR. Seðlabankinn mun birta upplýsingar um það þegar þær liggja fyrir. Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að frumvarp til laga um fjárhagslegar viðmiðanir sem innleiða mun BMR-reglugerðina verði lagt fyrir á yfirstandandi þingi. Samþykkt frumvarpsins hefur einungis áhrif á útreikning fjárhagslegra viðmiðana, þ.m.t. vaxtaviðmiðana og vísitalna, hér á landi en hefur ekki áhrif á tímasetningu breytinga vegna nýrra vaxtaviðmiðana sem stuðst er við erlendis.
Seðlabanki Íslands veitir nánari upplýsingar ef óskað er.