logo-for-printing

18. nóvember 2020

Yfirlýsing peningastefnunefndar 18. nóvember 2020

Bygging Seðlabanka Íslands

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 0,75%.

Mikil fjölgun COVID-19-smita á haustdögum og hertar sóttvarnir valda því að dregið hefur úr þeirri viðspyrnu í efnahagslífinu sem hófst á þriðja fjórðungi ársins eftir sögulegan samdrátt á öðrum ársfjórðungi. Efnahagshorfur hafa því versnað og gerir nóvemberspá Peningamála ráð fyrir 8,5% samdrætti landsframleiðslu á þessu ári sem er ríflega 1 prósentu meiri samdráttur en spáð var í ágúst. Einnig er spáð minni hagvexti á næsta ári. Óvissa um efnahagshorfur er mikil og mun þróun efnahagsmála að töluverðu leyti ráðast af framvindu farsóttarinnar.

Gengi krónunnar lækkaði eftir að farsóttin barst til landsins en hefur verið tiltölulega stöðugt undanfarið. Verðbólga hefur aukist frá því í vor og var 3,6% í október. Hins vegar hafa verðbólguvæntingar til meðallangs og langs tíma lítið breyst. Samkvæmt spá Seðlabankans eru horfur á að verðbólga verði um 3,7% að meðaltali fram á næsta ár en taki þá að hjaðna enda slakinn í þjóðarbúinu mikill.

Þótt verðbólga hafi aukist tímabundið og horfur séu á að hún verði meiri en búist var við í ágúst gerir traustari kjölfesta verðbólguvæntinga peningastefnunefnd kleift að bregðast við versnandi efnahagshorfum með afgerandi hætti. Lækkun vaxta og aðrar aðgerðir sem Seðlabankinn hefur gripið til undanfarna mánuði hafa stutt við innlenda eftirspurn og dregið úr neikvæðum áhrifum efnahagsáfallsins.

Peningastefnunefnd mun áfram nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða, m.a. kaup Seðlabankans á ríkisskuldabréfum, til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að lausara taumhald peningastefnunnar miðlist með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja.

Sjá nánar: Vextir og bindiskylda við Seðlabanka Íslands

Frétt nr. 40/2020
18. nóvember 2020

Vextir verða því sem hér segir:

1. Daglán 2,50%
2. Lán gegn veði til 7 daga 1,50%
3. Innlán bundin í 7 daga 0,75%
4. Viðskiptareikningar 0,50%
5. Bindiskyldar innstæður, föst bindiskylda 0,00%


Til baka