logo-for-printing

29. desember 2020

Seðlabankinn lengir aðlögunartíma lágmarks lausafjárhlutfalls í íslenskum krónum um eitt ár

Bygging Seðlabanka Íslands

Í dag voru birtar í Stjórnartíðindum reglur nr. 1399/2020, um breytingu á reglum nr. 266/2017, um lausafjárhlutfall lánastofnana, með síðari breytingum. Með breytingunni er sá tími sem lánastofnanir hafa til að laga sig að kröfu um lágmarks lausafjárhlutfall í íslenskum krónum framlengdur um eitt ár.

Um síðastliðin áramót tóku gildi breytingar á reglum nr. 266/2017, um lausafjárhlutfall lánastofnana, sem fólu í sér viðbótarkröfu um 50% lágmarks lausafjárhlutfall fyrir íslenskar krónur. Lágmarkskrafan kom til framkvæmda við gildistöku reglnanna en lánastofnunum var veittur tveggja ára aðlögunartími. Hlutfallið var 30% við gildistöku reglnanna en átti að hækka í 40% 1. janúar 2021 og 50% í ársbyrjun 2022. Seðlabankinn hefur nú ákveðið framlengja aðlögunartímann um eitt ár, þ.e. lágmarks lausafjárhlutfall í íslenskum krónum verði áfram 30% út árið 2021, eftir það hækkar hlutfallið í 40% fram til 31. desember 2022 þegar 50% lágmarks lausafjárhlutfall tekur gildi. Lausafjárhlutfall annars vegar fyrir alla gjaldmiðla samtals og hins vegar fyrir erlenda gjaldmiðla samtals verða óbreytt í 100%.

Lenging aðlögunartíma lágmarks lausafjárhlutfalls í íslenskum krónum er í samræmi við yfirlýsingar Seðlabankans um að auðvelda aðgengi lánastofnana að lausu fé í krónum og nýta svigrúm reglna þar sem hægt er og við á. Í lausafjárreglum er að finna almenna kröfu um að lánastofnanir skuli að jafnaði stýra gjaldmiðlasamsetningu lausafjáreigna í samræmi við útflæði. Seðlabankinn telur þó æskilegt að lánastofnanir hafi meiri sveigjanleika til skamms tíma til að stýra gjaldmiðlasamsetningu lausafjáreigna m.t.t. lausafjárstöðu í íslenskum krónum í ljósi þeirrar óvissu sem enn ríkir í efnahagslífinu vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Eins og fram hefur komið er hins vegar ekki dregið úr kröfum til lánastofnana um laust fé á móti skammtímaskuldbindingum fyrir alla gjaldmiðla samtals. Bankarnir hafa um þessar mundir sterk lausafjárhlutföll og rúma lausafjárstöðu og hafa því getu til að styðja við hagkerfið á samdráttartímum með lánveitingum til fyrirtækja og heimila.

Sjá hér: Reglur nr. 1399/2020, um breytingu á reglum nr. 266/2017, um lausafjárhlutfall lánastofnana, með síðari breytingum.

 


Til baka