logo-for-printing

13. janúar 2021

Yfirlýsing fjármálaeftirlitsnefndar 13. janúar 2021

Fjármálaeftirlitsnefnd: Neðri röð f.v. Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri. Efri röð f.v. Guðrún Þorleifsdóttir, Andri Fannar Bergþórsson og Ásta Þórarinsdóttir.

Í yfirlýsingu fjármálaeftirlitsnefndar 8. apríl 2020 voru kynntar helstu áherslur í fjármálaeftirliti á tímum kórónuveirufaraldurs. Fjármálaeftirlitsnefnd tók undir yfirlýsingar Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) frá 31. mars 2020 og Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar (EIOPA) frá 2. apríl 2020 þar sem þessar tvær stofnanir mæltust til þess að fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög legðu áherslu á að viðhalda sterkri eiginfjárstöðu á tímum mikillar óvissu með því m.a. að greiða ekki út arð, kaupa ekki eigin hlutabréf eða greiða út kaupauka.

Fjármálaeftirlitsnefnd birtir nú endurskoðuð tilmæli um arðgreiðslur fjármálafyrirtækja og kaup þeirra á eigin hlutabréfum sem gilda til 30. september 2021 þar sem meðal annars er tekið mið af yfirlýsingu Evrópska kerfisáhætturáðsins (ESRB) frá 15. desember 2020. Í henni voru eftirlitsstofnanir í löndum sem eiga aðild að ESRB hvattar til þess að beina því til fjármálafyrirtækja sem sæta eftirliti þeirra að gæta ýtrustu varúðar við greiðslu arðs og kaup á eigin bréfum fram til 30. september 2021. EBA birti sama dag yfirlýsingu svipaðs efnis.

Mikil óvissa er um þróun efnahagsmála næstu misseri og rík ástæða til að viðhalda sterkri eiginfjárstöðu. Fjármálaeftirlitsnefnd leggur því áherslu á að fjármálafyrirtæki sýni fyllstu varfærni þegar litið er til eiginfjárstöðu og tekur undir framangreindar yfirlýsingar ESRB og EBA. Í þessu samhengi er einnig minnt á yfirlýsingu fjármálaeftirlitsnefndar frá 22. september 2020 um að niðurstaða úr könnunar- og matsferlinu 2019 um viðbótarkröfu um eiginfjárgrunn hjá kerfislega mikilvægu bönkunum þremur skyldi standa óbreytt þrátt fyrir aukna áhættu og óvissu tengda faraldrinum.

Fjármálaeftirlitsnefnd leggst ekki gegn greiðslu arðs eða kaupum á eigin hlutabréfum en brýnir fyrir fjármálafyrirtækjum að eftirfarandi atriði verði höfð að leiðarljósi við ákvarðanir þar um:

  • Afkoma fjármálafyrirtækis hafi verið jákvæð á síðasta rekstrarári og áætlanir um þróun eigin fjár sýni sterka eiginfjárstöðu næstu þrjú ár. Mælst er til að mat fjármálafyrirtækis á hvoru tveggja verði borið tímanlega undir Fjármálaeftirlitið.
  • Fjárhæð arðgreiðslu eða kaupa á eigin bréfum nemi að hámarki 25% af uppsöfnuðum hagnaði eftir skatta vegna áranna 2019 og 2020 eða 0,4 prósentustiga lækkunar á hlutfalli almenns eiginfjárþáttar 1, hvort sem lægra reynist.

Fjármálaeftirlitsnefnd brýnir jafnframt fyrir vátryggingafélögum að gæta ýtrustu varfærni við stýringu eiginfjár vegna þeirrar óvissu sem ríkir í efnahagsmálum af völdum faraldursins. Fjármálaeftirlitsnefnd tekur undir yfirlýsingu EIOPA frá 18. desember 2020 um þá áhættu sem vátryggingafélög standa frammi fyrir og að varúðarsjónarmiða skuli gætt við ákvörðun um greiðslu arðs og kaup á eigin hlutabréfum. Við ákvarðanir um greiðslu arðs eða kaup á eigin hlutabréfum verða vátryggingafélög að huga að gjaldþolsstöðu sinni. Á meðan óvissan ríkir mun Fjármálaeftirlitið fylgjast náið með því hvort eigið áhættu- og gjaldþolsmat vátryggingafélaga sé nægilega varfærið og framsýnt. 

Nr. 1/2021
13. janúar 2021

Sjá nánar:
Yfirlýsing fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands 8. apríl 2020
Yfirlýsing Evrópska kerfisáhætturáðsins (ESRB) 15. desember 2020
Yfirlýsing Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA) 15. desember 2020
Yfirlýsing Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunarinnar (EIOPA) 18. desember 2020
Yfirlýsing fjármálaeftirlitsnefndar 22. september 2020Til baka