logo-for-printing

24. mars 2021

Yfirlýsing peningastefnunefndar 24. mars 2021

Peningastefnunefnd: f.v. Rannveig Sigurðardóttir, Gylfi Zoëga, Ásgeir Jónsson, Katrín Ólafsdóttir og Gunnar Jakobsson

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 0,75%.

Samkvæmt nýlega birtum þjóðhagsreikningum var samdráttur landsframleiðslu 6,6% í fyrra en í febrúarspá sinni hafði Seðlabankinn gert ráð fyrir að hann yrði 7,7%. Efnahagsumsvif reyndust kröftugri en spáð hafði verið á síðasta fjórðungi ársins og samdrátturinn á fyrstu þremur fjórðungum ársins var nokkru minni en fyrri tölur bentu til. Nýlegar hátíðnivísbendingar og kannanir benda til áframhaldandi bata það sem af er þessu ári. Óvissan er hins vegar mikil og þróun efnahagsmála hér og erlendis mun að töluverðu leyti ráðast af framvindu farsóttarinnar og hversu vel bólusetning gegn henni gengur.

Verðbólga hjaðnaði í febrúar og mældist 4,1%. Áhrif gengislækkunar krónunnar í fyrra vega enn þungt en eru líklega tekin að fjara út enda hefur gengi krónunnar hækkað nokkuð undanfarið. Því er útlit fyrir að verðbólga taki að hjaðna í vor þótt nærhorfur hafi líklega versnað frá því í febrúar. Alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð hefur hækkað undanfarið og borið hefur á kostnaðarhækkunum sem rekja má til framleiðsluhnökra í kjölfar farsóttarinnar. Þá hafa verðbólguvæntingar hækkað lítillega þótt of snemmt sé að álykta um hvort kjölfesta þeirra við verðbólgumarkmið bankans hafi veikst.

Peningastefnunefnd mun beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma.

 

Sjá nánar: Vextir og bindiskylda við Seðlabanka Íslands.

Frétt nr. 8/2021
24. mars 2021

 


Til baka