logo-for-printing

08. apríl 2021

Athugun á hvort samþykktir lífeyrissjóða tryggi nægilega sjálfstæði stjórnarmanna þeirra

Bygging Seðlabanka Íslands
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitið) hefur haft til skoðunar hvort samþykktir lífeyrissjóða tryggi nægilega sjálfstæði stjórnarmanna þeirra.

Með bréfi, dags. 3. júlí 2019, beindi Fjármálaeftirlitið því til lífeyrissjóða að kanna hvort sjóðirnir teldu tilefni til að skýra nánar í samþykktum hvort og þá við hvaða aðstæður umboð stjórnarmanna gæti verið afturkallað. Að mati Fjármálaeftirlitsins væri nauðsynlegt við þá skoðun að taka mið af góðum stjórnarháttum og tryggja að sjálfstæði lífeyrissjóða yrði ekki skert.

Í september 2020 óskaði Fjármálaeftirlitið eftir upplýsingum frá öllum lífeyrissjóðum um hvort þeir hefðu lagt mat á samþykktir sínar með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Í kjölfar yfirferðar á umbeðnum upplýsingum og samþykktum lífeyrissjóða hóf Fjármálaeftirlitið athugun á samþykktum 15 lífeyrissjóða.

Óljóst orðalag samþykkta, um hvort og þá hvernig víkja megi stjórnarmanni frá störfum, getur leitt til þess að aðilar sem koma að skipun eða kjöri stjórnarmanna og stjórnarmennirnir sjálfir túlki þær á ólíkan hátt. Slík mál eiga ekki að ráðast af því hvernig þessir aðilar túlka samþykktir lífeyrissjóða á hverjum tíma. Það getur falið í sér óvissu um umboð stjórnarmanna og þannig aukið rekstrar- og orðsporsáhættu lífeyrissjóða, sem þeim ber að takmarka eins og unnt er.

Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins var að skortur væri á skýrleika í samþykktum 13 lífeyrissjóða um hvort mögulegt væri að afturkalla umboð stjórnarmanna og hvernig staðið skyldi að slíkri afturköllun. Af þeim sökum taldi Fjármálaeftirlitið ekki fyllilega tryggt að starfsemi þeirra gæti talist eðlileg, heilbrigð og traust sbr. 4. mgr. 44. gr. laga nr. 129/1997, ef til ágreinings kæmi vegna túlkunar á ákvæðum samþykkta lífeyrissjóðanna.

Í ljósi niðurstöðunnar fór Fjármálaeftirlitið fram á að umræddir lífeyrissjóðir tækju samþykktir sínar til endurskoðunar á næsta skipulagða ársfundi, þannig að skýrt yrði með óyggjandi hætti hvort, hvernig og við hvaða aðstæður umboð stjórnarmanna yrði afturkallað. Í framhaldinu mun Fjármálaeftirlitið taka breyttar samþykktir lífeyrissjóðanna til skoðunar.
Til baka