logo-for-printing

30. apríl 2021

Samstæða Kviku banka hf. tilgreind sem fjármálasamsteypa á fjármálasviði

Bygging Seðlabanka Íslands

Hinn 26. apríl 2021 var samstæða Kviku banka hf. tilgreind sem fjármálasamsteypa á fjármálasviði af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands (Fjármálaeftirlitinu), sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 61/2017 um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Til fjármálasamsteypunnar teljast félög innan samstæðu Kviku banka hf. eins og hún er á hverjum tíma. Samstæðan samanstendur af Kviku banka hf. sem móðurfélagi, dótturfélögum þess og þeim félögum sem Kvika banki hf. eða dótturfélög þess eiga hlutdeild í auk félaga sem tengjast hvert öðru með tengslum sem um getur í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 61/2017, sbr. og 1. mgr. 3. gr. og 4., 5., 6. og 7. tölul. 2. gr. sömu laga.

Skilyrði þess að samstæða teljist fjármálasamsteypa er að finna í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 61/2017. Við mat á því hvort samstæða Kviku banka hf. teldist fjármálasamsteypa var m.a. litið til þess að Kvika banki hf., sem hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002, er móðurfélag TM trygginga hf., Íslenskrar endurtryggingar hf., TM líftrygginga hf., Kviku eignastýringar hf. og GAMMA Capital Management hf. sem öll eru undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Við mat á því hvort samanlögð umsvif samstæðunnar á vátryggingasviði annars vegar og fjármálasviði hins vegar teldust mikilvæg í skilningi 4. gr. laga nr. 61/2017 var litið til fjárhagsupplýsinga um samstæðuna sem skilað var inn til Fjármálaeftirlitsins vegna samruna Kviku banka hf. við TM hf. og Lykill fjármögnun hf. Þar sem samanlögð umsvif samstæðunnar á áðurnefndum sviðum voru yfir 10% af meðaltali hlutfalla sem reiknuð eru skv. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 61/2017, töldust umsvifin mikilvæg í skilningi þess ákvæðis.

Í tilgreiningunni felst að auk þess lögbundna eftirlits sem nú þegar er viðhaft með félögum innan fjármálasamsteypunnar munu þau lúta viðbótareftirliti Fjármálaeftirlitsins skv. ákvæðum laga nr. 61/2017. Í því felst m.a. að upplýsa þarf Fjármálaeftirlitið árlega um verulega samþjöppun áhættu fjármálasamsteypunnar, veruleg viðskipti innan samsteypunnar og niðurstöður athugunar á fjárhagsstöðu samsteypunnar, en eftirlitsskyldum aðilum innan samsteypunnar ber að tryggja að eiginfjárgrunnur hennar sé á hverjum tíma ekki lægri en lágmarksgjaldþol samsteypunnar skv. 1. mgr. 15. gr. laganna. Þá þarf innra eftirlit og áhættustýring að vera fyrir hendi á samsteypugrundvelli, auk traustrar stjórnunar- og endurskoðunarferla, sbr. 1. mgr. 23. gr. laganna. Þá mun Fjármálaeftirlitið sjá til þess að reglulega séu framkvæmd álagspróf á stöðu samsteypunnar, sbr. 24. gr. laganna.

Til baka