logo-for-printing

30. apríl 2021

Seðlabanki Íslands hættir reglulegri gjaldeyrissölu

Bygging Seðlabanka Íslands

Frá og með mánudeginum 3. maí nk. verður reglubundinni gjaldeyrissölu Seðlabanka Íslands hætt.

Seðlabankinn hóf reglulega sölu á gjaldeyri til viðskiptavaka á gjaldeyrismarkaði 14. september 2020. Á þeim tíma hafði innlendur gjaldeyrismarkaður ekki farið varhluta af áhrifum COVID-19-farsóttarinnar. Gengi krónunnar hafði veikst töluvert vegna mikils samdráttar útflutningstekna og fjármagnshreyfinga, og verðmyndun á gjaldeyrismarkaði var óskilvirk. Það var mat Seðlabankans að aukið og stöðugt framboð gjaldeyris úr gjaldeyrisforða bankans myndi að öðru óbreyttu leiða til aukins stöðugleika á gjaldeyrismarkaðnum með aukinni dýpt og bættri verðmyndun.

Samtals seldi Seðlabankinn 453 milljónir evra (71,2 ma.kr.) með reglubundnum hætti frá 14. september. Framkvæmd gjaldeyrissölunnar var þannig að Seðlabankinn seldi viðskiptavökum á gjaldeyrismarkaði 3 m. evra hvern viðskiptadag. Hinn 7. apríl sl. var dregið úr umfangi og tíðni sölunnar með fækkun viðskiptadaga úr fimm í þrjá, en fjárhæð hverrar gjaldeyrissölu var óbreytt. Reglubundin gjaldeyrissala nam 50,8% af heildarveltu bankans með gjaldeyri á tímabilinu 14. september 2020 til 30. apríl 2021, og 22,2% af heildarveltu gjaldeyrismarkaðarins.

Með hliðsjón af gengisstyrkingu íslensku krónunnar undanfarnar vikur og betra jafnvægi á gjaldeyrismarkaði telur Seðlabankinn ekki lengur þörf fyrir reglulega gjaldeyrissölu. Henni verður því hætt frá og með næstu viku.

Seðlabankinn mun eftir sem áður grípa inn í á gjaldeyrismarkaði til að draga úr sveiflum eftir því sem hann telur tilefni til, í samræmi við yfirlýsingu peningastefnunefndar frá 17. maí 2017.

Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri í síma 569 – 9600.

Sjá hér nánar fréttir bankans frá 9. september 2020 og 31. mars 2021.

Nr. 13/2021
30. apríl 2021


Til baka