logo-for-printing

04. maí 2021

Hvenær telst félag einnig vera sérhæfður sjóður?

Bygging Seðlabanka Íslands

Hinn 4. júní 2020 tóku gildi lög nr. 45/2020, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða. Með lögunum var starfsemi þeirra sem reka sérhæfða sjóði hér á landi gerð starfsleyfis- eða skráningarskyld án tillits til rekstrarforms rekstraraðila, rekstrarforms sérhæfða sjóðsins eða þess hvort sjóður er opinn eða lokaður.

Samkvæmt lögunum er það hugtaksskilyrði þess að vera sjóður um sameiginlega fjárfestingu að sjóðurinn veiti viðtöku fé frá fjárfestum til sameiginlegrar fjárfestingar samkvæmt fyrirfram kunngerðri fjárfestingarstefnu með ávinning fjárfesta að markmiði.

Skipulag sjóða getur verið margvíslegt. Því þarf að líta til raunverulegrar starfsemi og áætlunar félags við mat á hvort um sjóð sé að ræða. Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin hefur gefið út viðmiðunarreglur um lykilhugtök samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/61/ESB, um rekstraraðila sérhæfðra sjóða (AIFMD). Þar er fjallað um helstu hugtaksskilyrði þess hvenær um sjóð sé að ræða. Sérstök athygli er vakin á því að sjóðir geta verið sjálfreknir samkvæmt lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.

Seðlabanki Íslands hefur nú innleitt viðmiðunarreglur Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar, samanber dreifibréf Seðlabankans, dagsett 8. mars síðastliðinn.

Seðlabanki Íslands hvetur alla sem hugsanlega reka sjóði, hvort sem það er í formi fjárfestingarfélaga, samlagshlutafélaga sem stunda fjárfestingarstarfsemi eða öðru félagaformi, að kynna sér framangreindar viðmiðunarreglur og meta hvort starfsemi þeirra kunni að vera starfsleyfis- eða skráningarskyld samkvæmt lögum nr. 45/2020. Aðilum er falla undir starfsleyfis- eða skráningarskyldu ber að eigin frumkvæði að sækja um leyfi eða skráningu og er umsóknareyðublað að finna hér.

Vakin er athygli á því að Seðlabankinn hyggst ráðast í víðtæka athugun þar sem kannað verður hvort aðilar hér á landi séu að reka sérhæfða sjóði án viðeigandi starfsleyfis eða skráningar.


Til baka