logo-for-printing

07. júní 2021

Varaseðlabankastjóri á alþjóðlegri ráðstefnu um jafnréttismál

Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, tók þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um jafnréttismál 20. og 21. maí 2021. Ráðstefnan sem var haldin af austurríska seðlabankanum, Suerf – The European Money and Finance Forum og Joint Vienna Institute bar yfirskriftina Gender, money and finance.

Rannveig tók þátt í pallborðsumræðu um hvort kyn skipti máli í tengslum við ákvarðanatöku innan seðlabanka, einkum í peningastefnunefndum. Meðal þátttakenda á ráðstefnunni voru Christine Lagarde, forseti Evrópska Seðlabankans, og Kristalina Georgieva, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Rætt var um hvort það skipti máli varðandi ákvarðanir að konur jafnt sem karlar sitji í peningastefnunefndum seðlabanka. Rannveig sagði það auðvitað sjálfsagt að konur jafnt sem karlar kæmu að slíkum ákvörðunum. Hins vegar væru rannsóknir ekki óyggjandi um það hvort aukið kynjavægi hefði áhrif á hvaða ákvörðun væri tekin. Til væru rannsóknir sem sýndu bæði að konur stíga fast til jarðar í vaxtaákvörðunum og aðrar sem sýndu hið gagnstæða. Ánægjulegt væri hins vegar að nýjustu rannsóknir sýndu að aukinn fjöldi kvenna í peningastefnunefnd Bandaríkjanna (FOMC) skili sér í meiri og fjölbreyttari umræðu og bættu ákvörðunartökuferli nefndarinnar. Þessar niðurstöður væru í takt við niðurstöður rannsókna á auknu kynjajafnvægi í stjórnun fyrirtækja. Þær væru ekki afdráttarlausar varðandi áhrif aukins jafnræðis á mælanlega þætti eins og rekstrarafkomu en bentu hins vegar til þess að það auðgi samtalið í stjórnarherberginu - auk þess að bæta stjórnarhætti, stefnumörkun í umhverfismálum og samfélagslegri ábyrgð. Mælikvarðinn á áhrif jafnari kynjahlutfalla megi því ekki vera of þröngur.

Hægt er að horfa á upptöku af ráðstefnunni hér: 1st Vienna Economic Dialogue - Gender, Money and Finance

Rannveig tók þátt í panelumræðu nr. 2 sem hægt er að horfa á hér: 1st Vienna Economic Dialogue – Session 2

 

Til baka