logo-for-printing

14. júlí 2021

ESMA varar við áhættu vegna greiðslna gegn tilboðaflæði (PFOF)

Bygging Seðlabanka Íslands
Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (European Securities and Markets Authority, ESMA) hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem varað er við áhættu sem stafað getur af svokölluðum greiðslum gegn tilboðaflæði (e. payment for order flow, eða PFOF).

PFOF felur í sér að miðlari fær greiðslur frá þriðja aðila gegn því að beina tilboðum inn á viðskiptavettvanga þeirra. PFOF skapar þannig hagsmunaárekstur milli verðbréfafyrirtækis og viðskiptavina þess, þar sem það hvetur fyrirtækið til að velja þann þriðja aðila sem greiðir hæstu greiðsluna, frekar en að velja bestu mögulegu útkomuna fyrir viðskiptavini þess við framkvæmd fyrirmæla.

ESMA minnir á að móttaka greiðslna gegn tilboðaflæði varðar lagaákvæði um fjárfestavernd, sem kveður á um skyldur verðbréfafyrirtækja til að starfa með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi við framkvæmd fyrirmæla. Sér í lagi kröfur um bestu framkvæmd, hagsmunaárekstra, hvatagreiðslur og gagnsæi kostnaðar.

Það er mat ESMA að móttaka PFOF frá þriðja aðila stangist í flestum tilfellum á við ákvæði nýsamþykktra laga um markaði fyrir fjármálagerninga. Þar að auki fjallar ESMA um tiltekna framkvæmd miðlara sem bjóða upp á framkvæmd fyrirmæla án þóknunar (e. zero-commission brokers) í yfirlýsingunni.
Til baka