logo-for-printing

27. ágúst 2021

Gjaldeyrisforði stækkar við úthlutun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Bygging Seðlabanka Íslands

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn úthlutaði forðaeign í sérstökum dráttarréttindum (Special Drawing Rights, SDR) til aðildarlanda sjóðsins 23. ágúst síðastliðinn. Úthlutunin hafði áður verið samþykkt af Sjóðsráði (e. Board of Governors) 2. ágúst sl. Seðlabankastjóri á sæti í ráðinu. Heildarúthlutunin jafngildir 650 ma. Bandaríkjadala og er dreift til aðildarlanda í réttu hlutfalli við kvóta þeirra. Kvótar endurspegla stöðu landa í heimshagkerfinu og mynda grunninn að útlánagetu sjóðsins auk þess að atkvæðavægi landa í stjórn hans ræðst af kvóta.

Úthlutunin nú er sú stærsta í sögu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og á meðal annars rætur í þeim efnahagsþrengingum sem mörg lönd hafa gengið í gegnum vegna Covid-19-faraldursins. Úthlutuninni er ætlað að styðja við aðgengi landa að lausafé, styrkja gjaldeyrisforða og draga úr þörf fyrir óhagstæðari lántökur innanlands og erlendis. Gert er ráð fyrir að lönd geti nýtt hið aukna rými til að styðja við efnahaginn og takast á við áhrif Covid-19-faraldursins.

Forðaeign Íslands í SDR fyrir úthlutun var tæplega 184 milljónir SDR en hún jókst um ríflega 308 milljónir SDR við úthlutunina. Eign Íslands í SDR hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verður því 492 milljónir SDR eftir úthlutun. Það hefur í för með sér að gjaldeyrisforði Íslands stækkar um 55,4 ma.kr., úr 29% af VLF í 31% af VLF og hlutfall SDR fer úr 4% af forða í 10% af forða.

Sjá hér fréttatilkynningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins: IMF Managing Director Announces the US$650 billion SDR Allocation Comes into Effect.

Frétt nr. 20/2021
27. ágúst 2021

Til baka