Yfirlýsing peningastefnunefndar 6. október 2021
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 1,5%.
Samkvæmt bráðabirgðatölum þjóðhagsreikninga var hagvöxtur á fyrri hluta þessa árs heldur minni en gert var ráð fyrir í ágústspá Peningamála. Vöxtur innlendrar eftirspurnar var hins vegar í ágætu samræmi við spá bankans. Vísbendingar eru um áframhaldandi kröftugan innlendan efnahagsbata á þriðja fjórðungi ársins og hagvaxtarhorfur fyrir árið í heild hafa lítið breyst.
Verðbólga jókst í september og mældist 4,4%. Framlag húsnæðisliðarins hélt áfram að aukast og skýrir stóran hluta af ársverðbólgu í september. Undirliggjandi verðbólga hélt hins vegar áfram að hjaðna þótt hún sé enn nokkur. Áhrif tímabundinna framboðstruflana gætu aftur á móti varað lengur en áður var talið en þær hafa hækkað kostnað við að framleiða og dreifa vörum um allan heim.
Þótt undirliggjandi verðbólga fari minnkandi er það áhyggjuefni að verðbólguvæntingar virðast hafa tekið að hækka á ný. Of snemmt er þó að segja til um hvort kjölfesta þeirra við verðbólgumarkmið sé að veikjast.
Peningastefnunefnd mun beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma.
Frétt nr. 25/2021
6. október 2021
Vextir verða því sem hér segir:
1. Daglán 3,25%
2. Lán gegn veði til 7 daga 2,25%
3. Innlán bundin í 7 daga 1,50%
4. Viðskiptareikningar 1,25%
Sjá nánar: Ákvörðun um vexti og bindiskyldu við Seðlabanka Íslands