logo-for-printing

01. nóvember 2021

Bent á hættur sem fylgt geta fjárfestingarráðleggingum á samfélagsmiðlum

Bygging Seðlabanka Íslands
Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (ESMA) hefur sent frá sér yfirlýsingu um þær hættur sem fylgt geta fjárfestingarráðleggingum á samfélagsmiðlum. Er það í samræmi við það markmið ESMA á sviði fjárfestaverndar að standa vörð um almenna fjárfesta, en þátttaka þeirra er lykilþáttur í þróun fjármagnsmarkaða.

Í kjölfar mikillar aukningar í fjárfestingarráðleggingum á samfélagsmiðlum hafa áhyggjur aukist af því að almennir fjárfestar geri sér ekki grein fyrir þeirri áhættu sem fólgin eru í því að fylgja slíkum ráðleggingum. ESMA tiltekur að fjárfestingarráðleggingum þurfi að vera miðlað á hlutlægan og gagnsæjan hátt svo fjárfestar geti greint staðreyndir frá skoðunum áður en þeir taka fjárfestingarákvörðun. Þá sé mikilvægt að fjárfestar geti auðveldlega greint uppruna upplýsinga og mögulega hagsmuni þeirra sem birta ráðleggingarnar.

Í yfirlýsingunni gerir ESMA grein fyrir í hverju fjárfestingarráðleggingar felast, hvernig birta eigi slíkar ráðleggingar á samfélagsmiðlum og hvaða afleiðingar brot á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (MAR) getur haft í för með sér.
Hér má sjá yfirlýsingu á vef stofnunarinnar.
Til baka