logo-for-printing

08. desember 2021

Yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar 8. desember 2021

Fjármálastöðugleikanefnd. Efri röð frá vinstri: Tómas Brynjólfsson, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kristján Tómasson og Axel Hall. Neðri röð frá vinstri: Rannveig Sigurðardóttir, Ásgeir Jónsson, Gunnar Jakobsson og Unnur Gunnarsdóttir.

Staða fjármálastöðugleika er góð þegar á heildina er litið, þó að óvissa vegna faraldursins sé enn nokkur. Viðnámsþróttur stóru bankanna þriggja er mikill. Eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra er vel yfir lögbundnum mörkum og þeir hafa greiðan aðgang að fjármögnun.

Kröftugur efnahagsbati hefur á síðustu mánuðum stutt við heimili og fyrirtæki. Hlutabréfa- og fasteignaverð hefur hækkað verulega undanfarin misseri. Kerfisáhætta vex áfram, sérstaklega vegna skuldavaxtar heimila samhliða hækkandi íbúðaverði. Aðhald peninga- og þjóðhagsvarúðarstefnu hefur verið hert nokkuð á síðustu mánuðum.

Nefndin ákvað í ársfjórðungslegu endurmati á sveiflujöfnunaraukanum að halda gildi aukans óbreyttu. Ákvörðun nefndarinnar frá september um að hækka aukann úr 0% í 2% mun taka gildi í lok september árið 2022. Nefndin skoðar hvert hlutlaust gildi sveiflujöfnunaraukans verði til framtíðar.

Nefndin lagði í nóvember endanlegt mat á skilabærni kerfislega mikilvægra viðskiptabanka. Þá hefur nefndin nú einnig samþykkt MREL-stefnu, þar sem m.a. er tilgreint hvernig MREL-krafa lánastofnana er ákvörðuð. MREL-krafa felur í sér að eigið fé og tilteknar skuldir fjármálafyrirtækis nægi til að tryggja að það geti mætt ófyrirséðu tapi og að hægt verði að endurfjármagna það án opinbers fjárstuðnings, ef það telst vera á fallandi fæti.

Nefndin ítrekar að hugað verði að rekstraröryggi greiðslukerfa og minnir rekstraraðila á mikilvægi þess að tryggja rekstrarsamfellu. Brýnt er að áfram verði unnið að innleiðingu á óháðri innlendri smágreiðslulausn án tengingar við alþjóðlega kortainnviði.

Fjármálastöðugleikanefnd mun áfram beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi.

Nr. 28/2021
8. desember 2021

Meðfylgjandi:

Minnisblað 3. desember 2021. Bakgrunnur ákvörðunar um sveiflujöfnunarauka.


Til baka