logo-for-printing

10. desember 2021

Breyttar áherslur hjá Reiknistofu bankanna

Bygging Seðlabanka Íslands

Hluthafar Reiknistofu bankanna hf. (RB) hafa komist að samkomulagi um breyttar áherslur í starfsemi fyrirtækisins með það að markmiði að efla öryggi og stuðla að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í rekstri fjármálainnviða hér á landi. Í breytingunum felst að starfsemi RB verður skýrt skilgreind utan um samrekstur mikilvægra kerfa fyrir fjármálamarkaðinn, rekstur kerfa greiðslumiðlunar og tengdra innviða. Félagið mun draga sig út úr öðrum rekstri fyrir árslok 2026. Eins og áður verður samkeppnissjónarmiða gætt í hvívetna í starfsemi félagsins. Arðsemi þess skal vera hófleg og verðlagning gagnsæ. Það er ekki markmið félagsins að greiða arð til hluthafa heldur að verja hagnaði í þróun og uppbyggingu fjármálainnviða.

Til að ná fram aukinni samlegð við rekstur sameiginlegra fjármálainnviða hefur RB keypt ARK-kerfi og SWIFT-þjónustu Greiðsluveitunnar ehf., dótturfélags Seðlabanka Íslands, og starfsemi JCC ehf., seðlavers kerfislega mikilvægu bankanna.

RB verður til framtíðar aðeins í eigu fjármálafyrirtækja sem taka við innlánum (innlánsstofnana) og Greiðsluveitunnar, sem fer með hlut Seðlabanka Íslands. Eigendur fá nú beina aðild að stjórn RB en hana skipa einn fulltrúi hvers af kerfislega mikilvægu bönkunum, einn frá Greiðsluveitunni ásamt óháðum fulltrúa. Stjórnina skipa Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri, stjórnarformaður, Anna Bjarney Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri rekstrar, fjármála og tækni hjá RÚV og Halldóra G. Steindórsdóttir, hópstjóri í hugbúnaðarlausnum á upplýsingatæknisviði Landsbankans, Riaan Dreyer, framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Íslandsbanka, Styrmir Sigurjónsson, framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Arion banka.

Með þessum breytingum er stuðlað að virkri stefnumótun og betri eftirfylgni í þróun og rekstri innlendra fjármálainnviða, auk hagkvæmari framþróunar innviðanna. Reynsla síðustu ára af stórum innleiðingarverkefnum í fjármálakerfinu hefur sýnt fram á þörfina á slíkum breytingum. Innleiðingartími breytinga hefur verið of langur og kostnaður í kerfinu of mikill auk þess sem Ísland er að dragast aftur úr nágrannalöndum í framþróun ákveðinna innviða.

Samhliða breytingum á RB mun Seðlabanki Íslands setja á fót vettvang um framtíðarstefnumótun fyrir fjármálainnviði í landinu, svokallaðan framtíðarvettvang. Fjármálafyrirtækjum sem taka við innlánum og fjármála- og efnahagsráðuneyti verður gefinn kostur á að skipa fulltrúa á vettvanginn. Framtíðarvettvangi er ætlað að móta framtíðarsýn og áherslur í æskilegri þróun fjármálainnviða hér á landi. Þar verður jafnframt lagt grunnmat á hugmyndir og tillögur um ný samstarfsverkefni á sviði fjármálainnviða, t.d. á það hvort þau feli í sér æskilega þróun innlendra innviða og uppfylli ákvæði samkeppnislaga.

Með fyrirhuguðum breytingum mun íslenskt fjármálakerfi eflast með aukinni samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja bæði innanlands og yfir landamæri sem mun skila ábata bæði til viðskiptavina félagsins og neytenda allra. Breytingarnar eru í samræmi við áherslur sem fram komu í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem fjármála- og efnahagsráðuneytið gaf út árið 2018.

Frétt nr. 29/2021
10. desember 2021

Til baka