Breytingar á reglum um viðskiptareikninga
Breytingar hafa verið gerðar á reglum nr. 540/2007 um viðskiptareikninga við Seðlabanka Íslands og þær endurútgefnar sem reglur nr. 18/2022. Helstu efnisbreytingar lúta að stofnun og notkun viðskiptareikninga fjármálafyrirtækja við bankann en aðrar breytingar leiða af laga- og reglubreytingum sem orðið hafa frá setningu fyrri reglna. Umræddar efnisbreytingarnar fela einkum í sér hert skilyrði um þátttöku í miðlun peningastefnu bankans og að starfsemi reikningshafa raski ekki fjármálastöðugleika.
Til þess að geta átt viðskiptareikning í Seðlabankanum þarf fjármálafyrirtæki þannig að vera virkur þátttakandi í miðlun peningastefnu bankans, s.s. með móttöku innlána og veitingu útlána til almennings og fyrirtækja. Þá má starfsemi fjármálafyrirtækis ekki raska fjármálastöðugleika að mati Seðlabankans né vinna að öðru leyti gegn traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Í reglunum er jafnframt að finna skilyrði sem tekur gildi 1. júní 2022 og felur í sér að hlutfall innlána viðskiptavina fjármálafyrirtækis, sem geymt er á viðskiptareikningi eða í bundnum innlánum hjá Seðlabankanum, má að hámarki nema 40% á hverjum tíma.
Með þessum breytingum er nánar útfærð ákvörðun sem Seðlabanki Íslands birti á vef sínum í október 2019 um afmörkun viðskipta við bankann. Þar sagði m.a.: „Markmið Seðlabankans með viðskiptum og lausafjárstýringu er að styðja við miðlun peningastefnunnar út vaxtarófið. Í ljósi þess telur Seðlabankinn betur samræmast hlutverki bankans að haga vaxtamiðlun í gegnum þau fjármálafyrirtæki sem geta með skilvirkum og gagnsæjum hætti miðlað henni áfram til einstaklinga og fyrirtækja í formi innlána eða útlána. Þá er Seðlabankinn ennfremur þeirrar skoðunar að betur samræmist inntaki 2. mgr. 17. gr. laga nr. 36/2001 að bankinn eigi ekki í samkeppni við fjármálafyrirtæki um innstæður. Innlánsreikningar við bankann eigi því ekki að vera kostur í fjárfestingum eða áhættudreifingu, umfram það sem nauðsynlegt er fyrir viðskiptabanka, sparisjóði og fjármálaumsýslu hins opinbera.“
Frétt nr. 3/2022,
14. janúar 2022