logo-for-printing

14. janúar 2022

Bundin innlán til 7 daga verða innleysanleg

Bygging Seðlabanka Íslands

Í vikulegum viðskiptum býður Seðlabanki Íslands mótaðilum sínum bundin innlán til 7 daga á vöxtum sem eru 0,25 prósentum hærri en vextir á viðskiptareikningum í bankanum.

Frá og með 19. janúar 2022 tekur gildi breyting á skilmálum innlánanna þannig að mótaðilum verður heimilt að innleysa þau innan 7 daga binditímans. Við innlausn missir mótaðili 0,25 prósentu bindingarálagið á þá fjárhæð sem er innleyst og greiðir að auki innlausnargjald fyrir þá daga sem eftir eru binditímans skv. skilmálum en gjaldið er nú 1,25%.

Tilgangur þessarar breytingar er að taka af allan vafa um að bundin innlán skuli flokka sem lausafjáreignir í útreikningi lausafjárhlutfalls fjármálafyrirtækja. Lausafjárreglur Seðlabankans eru samhljóða afleiddri reglugerð Evrópusambandsins um laust fé lánastofnana (ESB 2015/61). Samkvæmt grein 30.41 Basel-staðalsins skulu innstæður í seðlabanka teljast til lausafjáreigna að því marki sem heimilt er að ganga á þær á álagstímum.

 

Frétt nr. 2/2022,
14. janúar 2022


Til baka