logo-for-printing

22. febrúar 2022

Samkomulag um sátt vegna brota SaltPay IIB hf. á ákvæðum laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Bygging Seðlabanka Íslands
Hinn 31. janúar 2022 gerðu fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands og SaltPay IIB hf. (hér eftir félagið) samkomulag um að ljúka með sátt máli vegna brota félagsins á ákvæðum laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Með samkomulaginu samþykkti félagið að greiða sekt að fjárhæð 44.300.000 kr. til ríkissjóðs og framkvæma fullnægjandi úrbætur innan tilgreindra tímamarka í samræmi við kröfur fjármálaeftirlitsins.

Í samkomulaginu er brotum félagsins á ákvæðum laga nr. 140/2018 lýst. Þar kemur m.a. fram að þegar horft sé heildstætt á efnislegt innihald áhættumats félagsins hafi ekki verið um að ræða greiningu og mat á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og að áhættumat, stefna, stýringar og verkferlar hafi ekki verið uppfærðir í samræmi við tilefni. Þá kemur fram að aðferðarfræði við áhættuflokkun viðskiptamanna hafi ekki tekið mið af áhættuþáttum tengdum peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og því hafi félagið ekki áhættuflokkað viðskiptamenn út frá hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Enn fremur kemur fram í samkomulaginu að framkvæmd félagsins á áreiðanleikakönnunum hafi verið ábótavant en í nokkrum tilfellum hafði ekki verið aflað upplýsinga um raunverulega eigendur og höfðu upplýsingarnar ekki verið sannreyndar. Þá var áreiðanleikakönnun, þegar þriðji aðili aflar gagna, talið verulega ábótavant þar sem upp komu tilvik þar sem félagið gat ekki sýnt fram á að framkvæmdar hefðu verið áreiðanleikakannanir, viðhaft hefði verið reglubundið eftirlit og að uppruni fjármuna sem notaðir voru í viðskiptasambandinu hefði verið staðfestur.

Samkomulagið kveður enn fremur á um að félagið hafi ekki gripið til viðeigandi ráðstafana til að kanna uppruna auðs og fjármuna sem notaðir eru í samningssambandi og ekki viðhaft aukið reglubundið eftirlit með einstaklingum í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla. Þá var reglubundið eftirlit með samningssamböndum við viðskiptamenn ekki áhættumiðað og beindist ekki gegn hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka heldur öðrum áhættuþáttum. Félagið uppfærði ekki áreiðanleikakannanir innlendra viðskiptamanna fyrr en við næstu reglulegu uppfærslu þrátt fyrir að það lægi fyrir að breyting hefði orðið á stjórnskipun og eignarhaldi og nýtti ekki fyrirliggjandi upplýsingar um viðskiptamenn við reglubundið eftirlit. Að lokum var skjölun og utanumhald gagna talin ófullnægjandi þar sem fjármálaeftirlitið gat ekki framkvæmt úttekt á afgreiddum flöggum viðskiptamanna í tengslum við reglubundið eftirlit því félagið gat ekki kallað fram upplýsingarnar úr kerfum sínum.

Sjá nánar: Samkomulag um að ljúka máli með sátt.
Til baka