Auknar þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins gegn Rússlandi
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands vekur athygli á því að utanríkisráðherra hefur með reglugerð nr. 248/2022 innleitt þvingunaraðgerðapakka Evrópusambandsins gagnvart Rússlandi og tilteknum rússneskum ríkisborgurum vegna ólögmætrar innrásar Rússlands í Úkraínu.
Þvingunaraðgerðirnar fela m.a. í sér frystingu fjármuna auk annarra aðgerða sem snúa að fjármálamarkaði. Fjármálaeftirlitið hvetur tilkynningarskylda aðila til þess að kynna sér vel hvaða aðila um ræðir. Framangreindar þvingunaraðgerðir taka í ljósi aðstæðna tíðum breytingum og er tilkynningarskyldum aðilum bent á að fylgjast vel með breytingum á lista stjórnarráðsins.
Fjármálaeftirlitið vill, í ljósi framangreinds, árétta skyldu tilkynningarskyldra aðila skv. a-k lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka til að fylgja lögum nr. 64/2019 um frystingu fjármuna o.fl. Tilkynningarskyldum aðilum ber að uppfylla tilteknar kröfur um frystingu fjármuna skv. framangreindum lögum. Í þessu sambandi er vakin sérstök athygli á kröfum ákvæða 4. gr. og 7. gr. laganna en þær felast m.a í eftirfarandi aðgerðum:
- Skylt er að hafa viðeigandi eftirlitskerfi (eða eftir atvikum ferla og aðferðir) til að meta hvort viðskiptamenn séu á listum yfir alþjóðlegar þvingunaraðgerðir. Með eftirlitskerfi er átt við tölvukerfi eða gagnagrunn sem sækir ávallt nýjustu upplýsingarnar um þá sem eru á listum yfir þvingunaraðgerðir. Skimun gagnvart slíkum listum skal fara fram bæði í upphafi viðskiptasambands og reglulega á samningstímanum. Þeir sem fengið hafa undanþágu frá kröfu um slík eftirlitskerfi á grundvelli 1. mgr. 7. gr. þurfa þó ávallt að hafa ferla og aðferðir til að meta hvort viðskiptamenn þeirra séu á listum yfir þvingunaraðgerðir. Mikilvægt er að tilkynningarskyldir aðilar endurmeti reglulega þörf á tíðni eftirlits.
2. Skylt er að frysta fjármuni og efnahagslegan auð (hér eftir „fjármuni“) ef í ljós kemur að viðskiptamaður er á listum yfir þvingunaraðgerðir, í samræmi við reglugerðir sem settar eru á grundvelli laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða, nr. 93/2008. Hér er m.a. átt við fjármuni sem eru í eigu viðskiptamannsins, hvort sem hann á þá með beinum eða óbeinum hætti (hefur yfirráð yfir þeim), hefur þá í sinni vörslu eða stýrir þeim. Nái eignarhaldið til fjármuna að hluta, skal frystingin ná til þeirra í heild sinni.
3. Tilkynna skal eigendum fjármuna, utanríkisráðuneytinu og fjármálaeftirlitinu um frystingu fjármuna. Tilkynningar um frystingu fjármuna og aðrar upplýsingar sem tengjast framkvæmd laga um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir og frystingu fjármuna skulu, eftir því sem við á, sendar til:
- utanríkisráðuneytisins á netfangið postur@mfa.is
- fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á netfangið sedlabanki@sedlabanki.is
Vanræksla á að uppfylla skyldur samkvæmt lögum um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir eða lögum um frystingu fjármuna getur varðað viðurlögum, m.a. í formi dagsekta eða stjórnvaldssekta.
Nánari skýringar er að finna á vefsíðu Seðlabanka Íslands í leiðbeiningum fjármálaeftirlitsins og í fræðsluefni stýrihóps aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Einnig er að finna nánari upplýsingar á lista stjórnarráðsins og á þvingunaraðgerðakorti Evrópusambandsins.