logo-for-printing

16. mars 2022

Yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar 16. mars 2022

Fjármálastöðugleikanefnd. Efri röð frá vinstri: Tómas Brynjólfsson, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kristján Tómasson og Axel Hall. Neðri röð frá vinstri: Rannveig Sigurðardóttir, Ásgeir Jónsson, Gunnar Jakobsson og Unnur Gunnarsdóttir.

Staða fjármálastöðugleika er góð. Viðnámsþróttur kerfislega mikilvægu bankanna er mikill. Eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra er vel yfir lögbundnum mörkum og þeir hafa því nægt svigrúm til að styðja við fyrirtæki og heimili.

Efnahagsbatinn í ár verður líklega hægari en áður var talið vegna áhrifa kórónuveirunnar og innrásar Rússa í Úkraínu, sérstaklega ef stríðið dregst á langinn.

Staða heimilanna er almennt góð og hægt hefur á skuldavexti þeirra. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist ár frá ári og eiginfjárstaða heimila hefur styrkst. Dregið hefur úr atvinnuleysi og atvinnuþátttaka aukist. Traust staða heimila mun auðvelda þeim að standa undir hærri greiðslubyrði íbúðalána ef vextir hækka frekar og heimilin hafa aðgang að ólíkum lánaformum til að takast á við verðbólgu. Vanskil hafa minnkað frá upphafi faraldursins og eru nú innan við 1% af útlánum banka til heimila.

Mörg fyrirtæki urðu ekki fyrir neikvæðum áhrifum af farsóttinni, en staða þeirra sem urðu fyrir miklu tekjufalli er ennþá viðkvæm. Nauðsynlegt er að bankakerfið haldi áfram vinnu við endurskipulagningu skulda þeirra.

Fjármálastöðugleikanefnd ákvað að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í ársfjórðungslegu endurmati. Ákvörðun nefndarinnar frá september sl. um að hækka aukann úr 0% í 2% tekur gildi í lok september nk. Nefndin ákvað einnig að halda gildi eiginfjárauka vegna kerfisáhættu óbreyttu í 3%.

Grannt er fylgst með þróun á fasteignamarkaði og skuldsetningu heimila. Nefndin telur aðhaldsstig lánþegaskilyrða nægjanlegt enn sem komið er enda hafi áhrif fyrri ákvarðana ekki komið fram að fullu.
Fjármálastöðugleikanefnd áréttar mikilvægi þess að hugað sé að netöryggi landsins og rekstraröryggi fjarskipta- og fjármálainnviða. Núverandi aðstæður undirstrika mikilvægi þess að auka viðnámsþrótt í innlendri greiðslumiðlun og hraða innleiðingu óháðrar smágreiðslulausnar. Nefndin ítrekar nauðsyn þess að rekstraraðilar gæti að öryggi greiðslukerfa og rekstrarsamfellu.

Fjármálastöðugleikanefnd mun áfram beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika þannig að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.

 

Frétt nr. 8/2022
16. mars 2022


Til baka