logo-for-printing

07. apríl 2022

Seðlabanki Íslands breytir reglum um afleiðuviðskipti

Skjaldarmerki Íslands

Seðlabanki Íslands hefur breytt reglum um afleiðuviðskipti þar sem íslensk króna er tilgreind í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli. Breytingarnar lúta að millibankaviðskiptum og fjárhæðarmörkum sérstakra tilkynninga um afleiðuviðskipti til Seðlabankans. Endurútgefnar reglur hafa verið birtar í Stjórnartíðindum undir númerinu 412/2022 og taka gildi á morgun, 8. apríl. Reglurnar voru samþykktar af fjármálastöðugleikanefnd á síðasta fundi nefndarinnar.

Breytingarnar á reglunum felast annars vegar í því að viðskipti á milli tveggja innlendra viðskiptabanka, teljast nú ekki í framvirkri gjaldeyrisstöðu samkvæmt reglunum og hins vegar í hækkun fjárhæðarmarka þegar kemur að sérstökum tilkynningum viðskiptabanka um afleiðuviðskipti til Seðlabankans. Þessum breytingum er ætlað að gera framkvæmd afleiðuviðskipta skilvirkari.

Takmörkun á afleiðuviðskipti innlendra viðskiptabanka með íslenska krónu er óbreytt frá eldri reglum um afleiðuviðskipti og eru heildarumfangi slíkra viðskipta áfram settar skorður. Þannig er enn kveðið á um að framvirk gjaldeyrisstaða hvers viðskiptabanka gagnvart hverjum ein-stökum mótaðila skuli ekki vera jákvæð eða neikvæð um hærri fjárhæð en sem samsvarar 10% af eiginfjárgrunni og að brúttó framvirk gjaldeyrisstaða (samtala tölugilda framvirkrar gjaldeyrisstöðu gagnvart hverjum og einum mótaðila) skuli ekki fara yfir 50% af eiginfjárgrunni einstakra viðskiptabanka.


Til baka