logo-for-printing

26. apríl 2022

Seðlabanki Íslands samþykkir skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvæga banka

Bygging Seðlabanka Íslands

Hinn 26. apríl 2022 samþykkti skilavald Seðlabanka Íslands skilaáætlanir fyrir kerfislega mikilvægu bankana þrjá – Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankann. Áætlanirnar ná til framkvæmdar skilameðferðar bankanna ef til þess kæmi að fjárhagsstaða þeirra yrði svo slæm að þeir teldust vera á fallanda fæti. Komi til falls kerfislega mikilvægs banka felur skilaáætlun í sér að mögulegt verði að endurreisa hann hratt og örugglega, án opinbers fjárstuðnings frá ríkissjóði eða Seðlabankanum. Skilameðferðin á að tryggja að almenningur og fyrirtæki hafi áfram óheftan aðgang að nauðsynlegri starfsemi (e. critical function) og styðja með því við fjármálastöðugleika í landinu.

Með samþykkt skilaáætlananna tók skilavaldið jafnframt ákvarðanir um lágmarkskröfu um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar bankanna (MREL), í samræmi við lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, nr. 70/2020. MREL-kröfurnar byggja á MREL-stefnu Seðlabankans. Þeim er ætlað að styðja við skilaáætlanirnar og tryggja að hægt verði að endurreisa banka sem er á fallanda fæti. Kerfislega mikilvægu bankarnir teljast allir þrír uppfylla MREL-kröfurnar.

Skilaáætlanir kerfislega mikilvægu bankanna eru unnar í samræmi við lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja, auk reglugerða og reglna sem settar eru á grundvelli laganna. Hver skilaáætlun byggir á mati á skilabærni viðkomandi banka sem er unnið samhliða gerð áætlunarinnar. Í matinu felst greining á starfsemi viðkomandi banka og rökstuðningur fyrir þeirri leið sem fara ber, ef hann fellur, með hliðsjón af markmiðum skilameðferðar. Á meðal helstu markmiða skilameðferðar er að tryggja að fall banka hafi sem minnst áhrif á viðskiptavini hans, að lágmarka hættu á að veita þurfi fjárframlög úr ríkissjóði auk þess að lágmarka neikvæðar afleiðingar fjármálaáfalls.

Nánari upplýsingar um starfsemi skilavaldsins og skilameðferð bankanna má finna á vef Seðlabankans.

Frétt nr. 10/2022
26. apríl 2022


Til baka