logo-for-printing

06. maí 2022

Lokun eldri vefþjónustu Fjármálaeftirlitsins vegna gagnaskila frestað til 30. maí nk.

Bygging Seðlabanka Íslands
Áður kynntri lokun eldri vefþjónustu Fjármálaeftirlitsins, sem koma átti til framkvæmdar 5. maí 2022, sbr. kynningu fyrir skilaaðila sem haldin var 20. janúar sl., hefur verið frestað til 30. maí nk. þar sem enn eru margir aðilar að nota þá vefþjónustu til gagnaskila.

Aðilum sem notað hafa þessa þjónustu er því gefinn rúmlega þriggja vikna viðbótarfrestur til að ljúka undirbúningi kerfa sinna og hefja notkun vefþjónustu gagnaskilakerfis Seðlabankans til reglubundinna gagnaskila. Leiðbeiningar um uppsetningu og notkun vefþjónustu má nálgast á þjónustuvef bankans.

Vegna framþróunar gagnaskilakerfa Seðlabankans er nauðsynlegt að stíga þetta skref svo fljótt sem auðið er. Rétt er því að ítreka að ekki verður mögulegt að seinka frekar lokun eldri vefþjónustu Fjármálaeftirlitsins þar sem það myndi tefja framgang framþróunar og sameiningar kerfa Seðlabankans og gæti leitt af sér öryggisvandamál.

Til þess að forðast óþægindi og mögulegar dagsektir vegna síðbúinna skila eru skilaaðilar hvattir til að hefja notkun vefþjónustu gagnaskilakerfis Seðlabankans svo fljótt sem verða má, en þó eigi síðar en 30. maí nk. hafi þeir ekki þegar tekið þjónustuna í notkun.

Þeim aðilum sem þegar hafa aðlagast og tekið í notkun vefþjónustu Seðlabankans eru þökkuð skjót og ábyrg viðbrögð.

Tæknilegar fyrirspurnir og beiðnir um aðstoð í tengslum við nýtingu vefþjónustu SÍ skulu sendar á netfang þjónustuborðs SÍ, adstod@seðlabanki.is

Eldri fréttatilkynningar vegna nýs gagnaskilakerfis Seðlabankans:
26. maí 2021 Nýtt gagnaskilakerfi Seðlabanka Íslands tekið í notkun
25. júní 2021 Stofnun kerfisnotanda í gagnaskilakerfi Seðlabankans
13. september 2021 Eldri gagnaskilakerfum Seðlabanka Íslands lokað 14. október en vefþjónustur aðgengilegar lengur
Til baka