logo-for-printing

20. maí 2022

Úthlutun úr menningarsjóði tengdum nafni Jóhannesar Nordals

Myndir teknar við úthlutunina. Hópmyndin sýnir styrkþegana frá vinstri: Sigurþór Sigurðsson, Bragi Halldórsson, Pamela De Sensi, Guðrún Ásmundsdóttir og Alexandra Chernyshova. Á myndum hér fyrir neðan má sjá Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra á mynd með Jóhannesi Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóra, og svo Gylfa Magnússon, formann bankaráðs, sem afhenti verðlaunin, á mynd með seðlabankastjóra og einum verðlaunahafa.
Myndir teknar við úthlutunina. Hópmyndin sýnir styrkþegana frá vinstri: Sigurþór Sigurðsson, Bragi Halldórsson, Pamela De Sensi, Guðrún Ásmundsdóttir og Alexandra Chernyshova. Á myndum hér fyrir neðan má sjá Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra á mynd með Jóhannesi Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóra, og svo Gylfa Magnússon, formann bankaráðs, sem afhenti verðlaunin, á mynd með seðlabankastjóra og einum verðlaunahafa.

Í gær fór fram ellefta úthlutun úr menningarsjóði sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordals, fyrrverandi seðlabankastjóra. Markmið sjóðsins er að styðja viðleitni einstaklinga og hópa sem miðar að því að varðveita menningarverðmæti sem núverandi kynslóð hefur fengið í arf. Alls bárust 16 umsóknir í ár og hlutu fjögur verkefni styrk úr sjóðnum.

Bragi Halldórsson hlaut einnar milljónar króna styrk en hann er í forsvari fyrir vinnuhóp sem vinnur að verkefninu Sálmabækur 16. aldar. Verkefnið snýr að því að gefa út sálmabækur Marteins Einarssonar og Gísla Jónssonar Skálholtsbiskupa og sálmabók Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups. Með útgáfu þessara þriggja sálmabóka verða allir prentaðir sálmar sem tengjast mikilvægum tímamótum í bókmennta- og kirkjusögu landsins aðgengilegir almenningi.

Sigurþór Sigurðsson hlaut einnar milljónar króna styrk til verkefnisins Saga bókbands á Íslandi. Gerð bókbands á elstu handritum landsins verður þar tekin fyrir og fjallað um bókband frá Hólum, Skálholti, Hrappsey, Leirárgörðum og áfram til okkar tíma. Farið verður yfir þróun bókbands, efnisnotkun og verkfæri. Jafnframt verður í bókinni umfjöllun um bókbindara sem störfuðu á þessum tíma.

Pamela De Sensi fékk einnig einnar milljónar króna styrk en hún fer fyrir félaginu Töfrahurð tónlistarútgáfa. Hópurinn stendur að verkefni sem nefnist Dimmalimm – tónlistarævintýri. Árið 2024 verða 100 ár frá andláti Muggs og af því tilefni verður gefin út bók með sögunni og myndskreytingum. Einnig verður frumflutt nýtt tónlistarævintýri sem byggir á sögunni um Dimmalimm þar sem ungir áheyrendur verða teknir í ferðalag með tónlist og sögumanni.

Að lokum hlaut Dream Voices menningar- og fræðslufélag, einnar milljónar króna styrk til verkefnisins Skáldið og biskupsdóttirin 2022. Um er að ræða hljóðupptöku óperu um vináttu Hallgríms Péturssonar skálds og Ragnheiðar Brynjólfsdóttur biskupsdóttur. Óperan er skrifuð fyrir ellefu einsöngvara, óperukór og hljómsveit. Alexandra Chernyshova er höfundur tónlistar, höfundur handrits er Guðrún Ásmundsdóttir leikkona og ljóð eru eftir Rúnar Kristjánsson, Hallgrím Pétursson, Brynjólf Sveinsson, Guðnýju frá Klömbrum og Daða Halldórsson.

Úthlutunarnefnd menningarsjóðsins skipuðu að þessu sinni: Hildur Traustadóttir, fulltrúi í bankaráði Seðlabanka Íslands, en hún var formaður. Aðrir í nefndinni voru Jón Þ. Sigurgeirsson, efnahagsráðgjafi í menningar- og viðskiptaráðuneyti, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.


Til baka

Myndir með frétt