logo-for-printing

01. júní 2022

Halli á viðskiptajöfnuði 50,3 ma.kr. á fyrsta fjórðungi 2022 – hrein staða við útlönd jákvæð um 32% af VLF

Bygging Seðlabanka Íslands

Á fyrsta ársfjórðungi 2022 var 50,3 ma.kr. halli á viðskiptajöfnuði við útlönd. Það er 5,8 ma.kr. lakari niðurstaða en ársfjórðunginn á undan og 27 ma.kr. lakari en á sama fjórðungi árið 2021. Halli á vöruskiptajöfnuði var 20 ma.kr. og 5,4 ma.kr. af þjónustujöfnuði. Halli á frumþáttatekjum nam 15,8 ma.kr. og 9,1 ma.kr. á rekstrarframlögum.
Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit yfir greiðslujöfnuð við útlönd á fyrsta ársfjórðungi 2022 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Lakari niðurstaða viðskiptajafnaðar miðað við sama ársfjórðung árið 2021 skýrist að mestu leyti af lakari niðurstöðu frumþáttatekna sem nemur 28,5 ma.kr. Að mestu leyti skýrist það af bættri afkomu fyrirtækja í erlendri eigu sem flokkast undir beina fjárfestingu. Einnig voru vöruviðskipti lakari um sem nemur 0,4 ma.kr., og rekstrarframlög um 1 ma.kr. Halli á þjónustuviðskiptum var um 2,9 ma.kr. minni.

Í lok ársfjórðungsins var hrein staða við útlönd jákvæð um 1.076 ma.kr. eða 32% af vergri landsframleiðslu (VLF) og versnaði um 214 ma.kr. eða 6,4% af VLF á fjórðungnum. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.807 ma.kr. í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.730 ma.kr. Á fjórðungnum lækkaði staðan um 38 ma.kr. vegna fjármagnsviðskipta en erlendar eignir lækkuðu um 19 ma.kr. vegna þeirra og skuldir hækkuðu um 51 ma.kr. Virði eigna lækkaði á ársfjórðungnum um 302 ma.kr. vegna gengis- og verðbreytinga og skuldir lækkuðu um 116 ma.kr. Gengis- og verðbreytingar leiddu því til lakari stöðu sem nemur 186 ma.kr. Verð á erlendum verðbréfamörkuðum lækkaði um 5,6% milli fjórðunga og verð á bréfum á innlendum hlutabréfamarkaði um 4,9%. Gengi krónunnar hækkaði um 3,2% miðað við gengisskráningarvog.

Í meðfylgjandi pdf-skjali eru ítarlegri upplýsingar um þetta efni: Frétt nr. 12/2022, 1. júní 2022: Halli á viðskiptajöfnuði 50,3 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2022 - hrein staða við útlönd jákvæð um 32% af landsframleiðslu.

Til baka