logo-for-printing

02. júní 2022

Aukin fylgni á verði innlendra og erlendra hlutabréfa

Það sem af er ári hefur verð hlutabréfa lækkað töluvert víða enda hefur vaxandi verðbólga og aukið peningalegt taumhald seðlabanka breytt umhverfi fjárfesta. Innrás Rússa í Úkraínu og refsiaðgerðir gagnvart Rússlandi hafa leitt til mikilla hækkana á orkuverði og verði annarrar hrá- og matvöru. Þessir alþjóðlegu þættir hafa áhrif á eignamarkaði um allan heim þótt þau séu mismunandi milli landa. Orkuverðshækkanir hafa t.a.m. mikil áhrif á mörg Evrópuríki en þau eru vægari hér á landi. Þar að auki hefur verð á sjávarafurðum og áli hækkað mikið sem eykur útflutningstekjur Íslands.

Þar sem íslenski hlutabréfamarkaðurinn er lítill og grunnur kann virkri verðmyndun á vissum tímum að hafa verið eitthvað ábótavant. Fá félög eru skráð í Kauphöll og lítil breidd er í atvinnugreinaskiptingu. Lífeyrissjóðir hafa verið lang stærstu fjárfestarnir á markaðnum en þeir eru í miklum mæli langtímafjárfestar vegna eðlis starfsemi sjóðanna. Á síðustu misserum hefur þátttaka einstaklinga á hlutabréfamarkaði og afleiðuviðskipti aukist sem hefur líklega bætt verðmyndun. Að undanförnu virðist verð á íslenskum hlutabréfamarkaði í auknum mæli lækka í takt við lækkanir á erlendum hlutabréfamörkuðum þrátt fyrir væntingar um ágætan hagvöxt hér á landi næstu ár og fréttir af góðri afkomu fyrirtækja.

Til að greina hvernig samband íslensks og erlendra hlutabréfamarkaða hefur þróast má notast við einfalda aðhvarfsgreiningu og sýnir mynd 1 fylgni íslensks hlutabréfamarkaðar við erlenda hlutabréfamarkaði. [1]  Fylgnin við evrópska markaðinn var mikil frá miðju ári 2007 fram að falli Lehman-bankans í september 2008 þegar hún minnkaði á ný. Á árunum eftir fjármálakreppuna var innlendur hlutabréfamarkaður heldur lemstraður. Fá félög voru skráð í Kauphöllinni, fjárfestar voru áhættufælnir og þurftu að athafna sig innan gjaldeyrishafta. Á árunum frá fjármálakreppunni fram til ársins 2016 var fylgni við evrópska markaðinn lítil en jókst er leið á árið 2016 samhliða aukinni fjárfestingu erlendra aðila á innlendum hlutabréfamarkaði. Fylgnin jókst hratt í lok febrúar 2020 þegar COVID-19-heimsfaraldurinn braust út, enda áfallið á vissan hátt líkt milli landa.

Vaxtalækkanir og ríflegar stuðningsaðgerðir stjórnvalda víða um heim gerðu hlutafjármarkaði að álitlegum fjárfestingarkosti og þátttaka almennings varð verulega meiri þar sem ráðstöfunarfé jókst á sama tíma og neyslugeta var skert vegna sóttvarnaraðgerða. Ávöxtun hlutabréfa var almennt góð bæði hér á landi og erlendis. Fylgnin jókst á ný eftir innrás Rússa í Úkraínu en verð hlutabréfa víða um heim lækkaði þegar fjárfestar leituðu um tíma í öruggar eignir. Þrátt fyrir ólík áhrif stríðsins á Ísland og Evrópu hefur fylgnin haldist mikil í sögulegu samhengi. Fylgnin milli íslenska hlutabréfamarkaðarins og þess bandaríska annars vegar og breska hins vegar hefur þróast á svipaðan hátt og við þann evrópska þrátt fyrir að tengslin virðist ekki vera jafn sterk við bandaríska markaðinn en mögulega hefur ólíkur opnunartími markaða áhrif. Raunar fæst svipuð niðurstaða ef tengsl hagsveiflunnar á Íslandi og hagsveiflunnar í helstu viðskiptalöndum eru skoðuð á svipaðan máta en tengslin þar á milli hafa einnig aukist undanfarin ár.

 

Fylgni íslenska hlutabréfamarkaðarins við erlenda markaði kann að litast af eðli íslenska markaðarins en Marel hefur lengi verið langstærsta félagið á markaði. Marel heldur úti starfsemi í yfir þrjátíu löndum og er því mjög tengt alþjóðlegum mörkuðum sem mögulega skekkir niðurstöðurnar að því leyti að fylgni íslenska markaðarins við þann erlenda mælist meiri en ella. Ef tekið er tillit til áhrifa Marels má sjá að fylgnin milli íslenska markaðarins og þess erlenda minnkar talsvert. [2]  Fylgnin er enn mikil á tímabilinu fyrir fjármálakreppuna en eftir þann tíma er hún mun minni. Á tímum heimsfaraldursins er fylgnin minni eftir að tekið hefur verið tillit til Marels en þó yfir sögulegu meðaltali.

 

Fylgni á verði hlutabréfa hér sem og erlendis lýsir með grófum hætti tengslum hlutabréfamarkaðarins við alþjóðlega fjármálamarkaði en skipta má síðustu tæpum tveimur áratugum í þrjú tímabil. Það fyrsta í aðdraganda fjármálahrunsins þegar miklar verðhækkanir voru á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum, erlendar fjárfestingar á íslenskum hlutabréfamarkaði jukust, innlend fjármálafyrirtæki höfðu greiðan aðgang að erlendri fjármögnun og skuldsetning innlendra aðila jókst gríðarlega. Eftir fjármálakreppuna löskuðust tengsl við erlenda fjármálamarkaði verulega og gjaldeyrishöft voru sett á. Eign erlendra aðila á innlendum hlutabréfum dróst saman á sama tíma og lífeyrissjóðir bættu við eign sína.Gjaldeyrishöftin voru að mestu afnumin árið 2017 sem gerði íslenskar eignir að álitlegri fjárfestingarkosti auk þess sem fleiri félög voru skráð í Kauphöllinni. Þriðja tímabilið markast að miklu leyti af heimsfaraldri og stríðsátökum. Þótt áhrif þessara þátta séu að einhverju leyti ólík eftir löndum hefur umhverfi fjárfesta um allan heim þróast með svipuðum hætti þar sem viðbrögð stjórnvalda við farsóttinni og vaxandi verðbólgu hafa verið keimlík. Þá hafa tengsl innlendrar og alþjóðlegrar hagsveiflu einnig aukist undanfarin ár. Þessir þættir kunna því að skýra aukna fylgni íslensks hlutabréfamarkaðar við erlenda markaði.

Höfundar: Aðalsteinn Hugi Gíslason, Guðrún Yrsa Richter og Lilja Sólveig Kro, hagfræðingar á sviði hagfræði og peningastefnu

Neðanmálsgreinar:

1. Metið er samband dagsbreytinga íslensku OMXI10 hlutabréfavísitölunnar og erlendra hlutabréfavísitalna með hlaupandi aðhvarfsgreiningu með eins árs glugga.

2. Í þeirri aðhvarfsgreiningu er dagsbreytingum á verði Marels bætt við sem skýribreytu og má því túlka stuðulinn við erlenda markaði sem áhrif þeirra á íslenska markaðinn þegar tekið hefur verið tillit til áhrifa Marels á íslenskan markað. Þetta er gróf nálgun og þessari aðferð fylgja þeir annmarkar að mögulega inniheldur Marel önnur alþjóðleg áhrif sem er þá einnig búið að taka tillit til.

Til baka