logo-for-printing

15. júní 2022

Yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar 15. júní 2022

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands. Mynd tekin eftir fund nefndarinnar 14. júní 2022. Frá vinstri eru Guðrún Þorleifsdóttir, Rannveig Sigurðardóttir, Axel Hall, Ásgeir Jónsson formaður, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kr. Tómasson, Unnur Gunnarsdóttir og Gunnar Jakobsson.
Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands. Mynd tekin eftir fund nefndarinnar 14. júní 2022. Frá vinstri eru Guðrún Þorleifsdóttir, Rannveig Sigurðardóttir, Axel Hall, Ásgeir Jónsson formaður, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kr. Tómasson, Unnur Gunnarsdóttir og Gunnar Jakobsson.

Viðnámsþróttur kerfislega mikilvægu bankanna er mikill. Eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra er vel yfir lögbundnum mörkum. Gæta þarf þess að vaxandi efnahagsumsvifum fylgi ekki yfirdrifin áhættusækni og óhóflegur vöxtur útlána sem gæti veikt viðnámsþrótt fjármálakerfisins. Verði bakslag í alþjóðlegum efnahagsbata gæti það haft áhrif á fjármálastöðugleika hér á landi.

Fasteignaverð hefur hækkað enn frekar á þessu ári og vikið nokkuð frá langtímaþáttum eins og launaþróun, byggingarkostnaði og leiguverði. Til að gæta að viðnámsþrótti lántakenda og lánveitenda hefur nefndin í ljósi aðstæðna ákveðið að lækka hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána fyrir fyrstu kaupendur úr 90% í 85%. Hlutfallið fyrir aðra kaupendur verður óbreytt. Nefndin hefur jafnframt ákveðið að setja viðmið um vexti við útreikning greiðslubyrðar í reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána til neytenda. Viðmiðið verður að lágmarki 3% fyrir vexti verðtryggðra íbúðalána og 5,5% fyrir vexti óverðtryggðra íbúðalána. Aukinheldur hefur nefndin ákveðið að stytta hámarkslánstíma við útreikning greiðslubyrðar fyrir verðtryggð lán og miða þar við 25 ár. Breytingum á greiðslubyrðarhlutfalli er ætlað að efla áhættuvitund lántakenda við val þeirra milli lánsforma en greiðslubyrði verðtryggðra lána er hlutfallslega léttari í upphafi en þyngri eftir því sem líður á lánstímann. Markmið framangreindra aðgerða er að takmarka uppsöfnun kerfisáhættu í fjármálakerfinu.

Þá hefur nefndin ákveðið að halda sveiflujöfnunaraukanum óbreyttum. Ákvörðun nefndarinnar frá september sl. um að hækka aukann úr 0% í 2% tekur gildi í lok september nk.

Fjármálastöðugleikanefnd áréttar mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun og hraða innleiðingu óháðrar smágreiðslulausnar.

Fjármálastöðugleikanefnd mun áfram beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika þannig að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.

Meðfylgjandi:

Minnisblað 8. júní 2022. Bakgrunnur ákvörðunar um sveiflujöfnunarauka

Breytingar á lánþegaskilyrðum - kynning Gunnars Jakobssonar, varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika 

Frétt nr. 13/2022
15. júní 2022

Til baka