logo-for-printing

05. júlí 2022

Mat á loftslagsáhættu

Aðferðarfræði fjármálafyrirtækja

Þótt vísindamenn hafi lengi varað við áhættunni af loftslagsbreytingum er það einungis á síðari misserum sem samfélög og þjóðríki í heild sinni hafa farið að bregðast við áhættunni með markvissum hætti. Þar eru fjármálafyrirtæki engin undantekning.

Mat á fjárhagslegri áhættu er kjarnastarfsemi fjármálafyrirtækja. Þar skiptir ekki máli hvort um er að ræða banka, lífeyrissjóði eða tryggingafélög. Í ljósi þess mætti ætla að mat á þeirri fjárhagslegu áhættu sem loftslagsbreytingar fela í sér (loftslagsáhætta hér eftir) ætti ekki að vera vandkvæðum bundið. Matið er þó erfiðara en ætla mætti því eiginleikar loftslagsáhættu eru þannig að erfitt getur verið fyrir fjármálafyrirtækin að meta hana.

Fjármál og raungreinar

Hefðbundið mat á fjárhagslegri áhættu fjármálafyrirtækja felur í sér mat á líkindadreifingu hugsanlegs taps. Það sem yfirleitt hefur mest áhrif á það mat er áætlað ástand efnahagsmála á spátímanum. Fjármálafyrirtæki eru ágætlega sett til að framkvæma slíkt mat. Hjá þeim flestum starfa sérfræðingar sem geta bæði spáð fyrir um efnahagslega þróun út frá núverandi stöðu og nýtt sér fyrirliggjandi efnahagsspár, t.d. frá opinberum aðilum. Út frá efnahagsspám og núverandi ástandi efnahagsmála er svo hægt að áætla ástand efnahagsmála fram í tímann. Með hliðsjón af því er svo hægt að áætla tap fjármálafyrirtækisins með því að gera ráð fyrir sagan endurtaki sig. Þannig er gert ráð fyrir að áætlað tap verði jafn mikið og þegar ástand efnahagsmála var síðast áþekkt því ástandi sem spáð er.

 

Við mat á loftslagsáhættu bætast tvö skref við hefðbundið mat á fjárhagslegri áhættu sem lýst var hér að framan:

1. Spá um ástand loftslags.

2. Spá um áhrif loftslags á ástand efnahagsmála.

Spá um ástand loftslags byggist á spá um losun gróðurhúsalofttegunda og flóknum líkönum sem eru notuð við að meta áhrif þeirrar losunar á loftslag jarðarinnar. Spá um losun gróðurhúsategunda byggist á mörgum þáttum, m.a. á mannfjöldaspá og spá um þróun losunar í einstaka atvinnugreinum. Það sem hefur þó mest áhrif á spá um losun gróðurhúsalofttegunda er áætluð orkunotkun og áætlað hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa. Þessar spár byggjast á líkönum sem byggð eru af sérfræðingum á mörgum sviðum, t.d. eðlisfræði, veðurfræði, þróun orkunotkunar o.s.frv. Fjármálafyrirtæki hafa takmarkaða þekkingu á þessum sviðum. Það eru því litlar líkur á að þau muni koma sér upp aðferðum til að spá fyrir um ástand loftslags heldur munu þau eingöngu byggja á traustum fyrirliggjandi spám loftslagssérfræðinga.

Næsta skref sem bætist við þegar loftslagsáhætta er metin er spá um áhrif loftslags á ástand efnahagsmála. Þar vandast málið því líkön eru sem fyrr segir oftast byggð á því að sagan endurtaki sig og hægt sé að taka mið af hliðstæðum aðstæðum í fortíðinni. Það gengur hins vegar ekki varðandi spár um loftslag því þar er verið að ráða í ástand sem hefur aldrei áður skapast. Þannig höfum við ekki reynslu af hlýrra veðurfari sem spáð er að verði.

Annar þáttur þess að meta áhrif loftslags á efnahagsmál er spá um hugsanleg viðbrögð stjórnvalda við loftslagsbreytingum. Meðan erfitt er að spá fyrir um breytingar í náttúrunni, er enn erfiðara að spá fyrir um viðbrögð stjórnvalda og er óvissan um þau einn stærsti hluti loftslagsáhættu nú.

Spá um áhrif loftslags á ástand efnahagsmála byggist á flóknum hagfræðilíkönum. Seðlabankar eiga nú alþjóðlegt samstarf um að smíða slík líkön og munu fjármálafyrirtæki líklegast reiða sig á þau.

 

Alþjóðleg loftslagslíkön sem notuð eru til þess að meta gróðurhúsaáhrif skila mjög grófum niðurstöðum og í þeim er litið á stór svæði sem einsleit. Möguleiki er til dæmis á því að litið sé á Evrópu sem eina einsleita heild í slíku líkani. Dæmi eru um að vísindamenn einstakra landa bæti við slíkar spár nákvæmari spám fyrir eigin lönd eða hluta landa sinna. Ekki er útilokað að það verklag festist í sessi innan þeirra landa sem hafa burði til að gera slíkar spár.

Spár um áhrif loftslags á ástand efnahagsmála eru einnig mjög grófar. Í þeim eru hópar landa og jafnvel öll Evrópa í sumum tilvikum skoðuð sem ein einsleit heild. Í þessum tilvikum hafa sumir seðlabankar gert nákvæmari spár fyrir sín lönd, jafnvel brotnar niður á einstakar atvinnugreinar. Spárnar eru þá byggðar á framangreindri alþjóðlegri efnahagsspá og nákvæmari spá innlendra vísindamanna um loftslag innanlands.

Ljóst er af öllu þessu að við horfum fram á breytt og flóknara landslag þegar kemur að áhættustýringu fjármálafyrirtækja varðandi loftslagsáhættu.

 

Gera má ráð fyrir að þegar fram líða stundir verði loftslagsspár sífellt nákvæmari sem og spár um efnahagsleg áhrif þeirra. Það mun að öllum líkindum leiða til þess að traust á þessum líkönum aukist og munu niðurstöður þeirra hafa sífellt meiri áhrif á áhættumat og þar með verðlagningu fjármálafyrirtækja á afurðum sínum. Um leið og spár með framangreindum líkönum breytast mun það samstundis hafa áhrif á markaðinn þrátt fyrir að breytingarnar sjálfar eigi sér ekki stað fyrr en eftir ár eða áratugi samkvæmt líkönunum. Áhrif loftslagsbreytinga munu því koma miklu fyrr fram í fjármálakerfinu en sjálfar breytingarnar verða. Þetta hefur í för með sér að fjármálafyrirtæki verða að horfa til lengri tíma í áhættumati sínu.

Í ljósi þessa er ekki ólíklegt að framsýnn fjármálageiri verði fyrsta atvinnugreinin sem sannarlega finnur fyrir áhrifum loftslagsbreytinga.

Höfundur:

Guðmundur Örn Jónsson, Seðlabanki Íslands / Sjálfbærnideild Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar

Til baka