logo-for-printing

17. ágúst 2022

Könnun á væntingum markaðsaðila

Seðlabanki Íslands kannaði væntingar markaðsaðila dagana 8. til 10. ágúst sl. Leitað var til 31 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana og fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar. Svör fengust frá 24 aðilum og var svarhlutfallið því 77%.

Helstu niðurstöður

Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að markaðsaðilar vænti þess að verðbólga nái hámarki á þriðja ársfjórðungi þessa árs og verði að meðaltali 10%. Þá telja þeir að verðbólga taki að hjaðna í kjölfarið og verði 5,8% að ári liðnu og 4% eftir tvö ár. Þetta er meiri verðbólga en markaðsaðilar væntu í aprílkönnuninni en þá gerðu þeir ráð fyrir að hún yrði 5% að ári liðnu. Langtímaverðbólguvæntingar hafa jafnframt hækkað frá síðustu könnun og er búist við að verðbólga verði að meðaltali 3,8% á næstu fimm árum. Verðbólguvæntingar til tíu ára hafa einnig hækkað og mælast um 3,5%. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar hækki lítillega á næstu misserum og að gengi evru gagnvart krónu verði 138 krónur eftir eitt ár.

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir bankans hækki í 5,5% á yfirstandandi fjórðungi og að þeir hækki enn frekar í framhaldinu og verði 6% á fyrsta fjórðungi næsta árs. Þá vænta þeir þess að vextir lækki aftur og verði 5,5% eftir eitt ár og að þeir lækki í um 4,5% að tveimur árum liðnum. Þetta eru hærri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í könnun bankans í apríl sl.

Nokkur breyting var á afstöðu svarenda til taumhalds peningastefnunnar en þeim fækkaði sem telja að taumhaldið sé of laust og er hlutfall þeirra 67% en hlutfallið var 79% í apríl. Þá fjölgaði þeim sem telja taumhaldið hæfilegt og er hlutfall þeirra um 29% samanborið við 17% í síðustu könnun. Rúmlega 4% svarenda í könnuninni eru þeirrar skoðunar að taumhaldið sé of þétt sem er sama hlutfall og í apríl.

Dreifing svara markaðsaðila um væntingar til verðbólgu var meiri en í síðustu könnun á alla mælikvarða en sérstaklega þegar horft var til næstu fjórðunga. Dreifing svara um væntingar til vaxta var hins vegar heldur minni en í síðustu könnun.

Sjá hér gögn um væntingar markaðsaðila:

Könnun á væntingum markaðsaðila í ágúst 2022.

Sjá sérstaka upplýsingasíðu um væntingar markaðsaðila hér á vef Seðlabankans.
Til baka