logo-for-printing

12. september 2022

Málstofa um hlut launa- og gengisbreytinga í verðbólgu - á morgun

Bygging Seðlabanka Íslands
Málstofa um hlut launa- og gengisbreytinga í verðbólgu á Íslandi verður haldin í Seðlabanka Íslands á morgun, þriðjudaginn 13. september kl. 15:00.

Frummælandi:
Ásgeir Daníelsson, fyrrverandi forstöðumaður rannsókna hjá Seðlabankanum.

Ágrip:
Fjallað er um tölfræðilegar aðferðir við að meta jöfnur til að spá verðbólgu á Íslandi. Bent er á ástæður fyrir því að áhrif launabreytinga á verðbólgu á þessari öld eru oft ómarktæk og sýnt að í slíkum tilfellum getur verið skynsamlegt að notfæra sér að vísitala neysluverðs, laun á framleidda einingu og verð á innfluttum vörum í krónum eru samþættar stærðir og nota samband á milli þeirra til að spá fyrir um verðbólgu. Sýnt er hvernig mikill breytileiki í launabreytingum og einkum mikill breytileiki í breytingum í verði á innfluttum vörum, miðað við breytileika í verðbólgu, veldur því að stuðlar við breytingu í launum og breytingu í verði innfluttra vara í jöfnum fyrir verðbólgu verða lægri en ella. Metin er spájafna fyrir verðbólgu þar sem samband vísitölu neysluverðs, launa og verðs á innfluttum vörum er skýristærð og prófað hvernig hún reynist í spám fyrir tímabilið 2018-2020. Þessi jafna spáir aðeins betur en jafnan sem nú er notuð í þjóðhagslíkani bankans, QMM, en spárnar eru síðri en þegar einfaldar spáformúlur eru notaðar.
Til baka