logo-for-printing

28. september 2022

Yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar 28. september 2022

Fjármálastöðugleikanefnd. Frá vinstri eru Guðrún Þorleifsdóttir, Rannveig Sigurðardóttir, Axel Hall, Ásgeir Jónsson formaður, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kr. Tómasson, Unnur Gunnarsdóttir og Gunnar Jakobsson.
Fjármálastöðugleikanefnd. Frá vinstri eru Guðrún Þorleifsdóttir, Rannveig Sigurðardóttir, Axel Hall, Ásgeir Jónsson formaður, Bryndís Ásbjarnardóttir, Guðmundur Kr. Tómasson, Unnur Gunnarsdóttir og Gunnar Jakobsson.

Alþjóðlegar efnahagshorfur hafa versnað að undanförnu og kann það að hafa neikvæð áhrif á íslenskan þjóðarbúskap. Verðbólga í okkar helstu viðskiptalöndum hefur ekki verið meiri í áratugi og hafa seðlabankar gripið til brattra vaxtahækkana. Þá hefur stríðið í Úkraínu haft í för með sér hærra orkuverð í Evrópu og hefur það ásamt öðrum þáttum aukið óvissu. Áhætta tengd fjármálastöðugleika hér á landi hefur því vaxið vegna versnandi ytri aðstæðna og líkur eru á að sú þróun haldi áfram.

Viðnámsþróttur kerfislega mikilvægu bankanna er mikill. Eiginfjár- og lausafjárstaða þeirra er sterk. Álagspróf Seðlabanka Íslands fyrir árið 2022 sýnir að bankarnir hafa getu til að bregðast við ytri áföllum og á sama tíma styðja við heimili og fyrirtæki.

Fasteignaverð á Íslandi hefur hækkað mikið og vikið umtalsvert frá undirliggjandi þáttum sem alla jafnan ráða þróun þess. Hækkunin hefur að mestu verið eiginfjárdrifin og skuldir heimilanna hafa fylgt tekjum síðustu ár. Beiting lánþegaskilyrða á fasteignamarkaði hefur dregið úr nýjum áhættusömum lánveitingum, stuðlað að auknu hlutfalli eiginfjár og varðveitt greiðslugetu nýrra lántakenda. Þetta ásamt vaxtahækkunum hefur dregið úr spennu á fasteignamarkaði.

Aukin ytri óvissa undirstrikar mikilvægi þess að viðhalda viðnámsþrótti íslenska fjármálakerfisins. Staðan hér á landi er betri en víðast hvar í viðskiptalöndum okkar en halda þarf fullri árvekni til að varðveita fjármálastöðugleika.

Fjármálastöðugleikanefnd ákvað að halda sveiflujöfnunaraukanum óbreyttum. Ákvörðun nefndarinnar frá september 2021 um að hækka aukann úr 0% í 2% tekur gildi á morgun, 29. september.

Nefndin áréttar mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun til að tryggja rekstrarsamfellu, meðal annars með vísan til vaxandi netógnar. Skref hafa verið tekin í átt að óháðri innlendri smágreiðslulausn sem er mikilvægt í ljósi stöðunnar.

Fjármálastöðugleikanefnd mun áfram beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika þannig að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.

Frétt nr. 18/2022
28. september 2022


Til baka