logo-for-printing

17. október 2022

Málstofa á morgun klukkan 15 um ákvarðandi þætti verðbreytinga

Bygging Seðlabanka Íslands

Málstofa verður haldin í Seðlabanka Íslands á morgun klukkan 15:00, þar sem gerð er tilraun til að varpa ljósi á ákveður (e. determinants) verðbreytinga.

Staður og stund:
Seðlabanki Íslands, Kalkofnsvegi 1, 101 Reykjavík, klukkan 15:00, þriðjudaginn 18. október 2022.
Gengið er inn frá Arnarhóli og fer málstofan fram í fundarsalnum Sölvhóli á fyrstu hæð.

Fyrirlesari:
Stefán Þórarinsson, hagfræðingur í Seðlabanka Íslands.

Ágrip:
Í þessari kynningu er gerð tilraun til að varpa ljósi á ákveður (e. determinants) verðbreytinga. Tilgreint er endurkvæmt, kvikt, formgert (e. SVAR) líkan til að vísa okkur leiðina. Líkanið er sniðið að íslenskum aðstæðum áður en það er metið með Bayesískum aðferðum, sér í lagi fjötrum við viðbragðsföll með fyrirframdreifingum til að tryggja að viðbrögð helstu hagstærða við skellum samrýmist niðurstöðum kennilegrar hagfræði. Greining á viðbragðsföllum og frávikum frá meðaltali sýnir að framleiðslu- og gengisskellir eru stærstu áhrifaþættir verðbólgu til skamms tíma. Til lengri tíma litið eru það erlendar aðstæður sem hafa mest áhrif á verðbólguþróun. Að endingu er kannað að hve miklu leyti verð innflutnings ákvarðast af innlendum eða erlendum þáttum og ályktað að erlend þróun ræður þar för.

Hér er að finna upplýsingar um málstofur í Seðlabanka Íslands haustið 2022

Til baka