logo-for-printing

18. október 2022

Ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2022

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tók ásamt öðrum fulltrúum Seðlabankans þátt í ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og tengdum fundum dagana 12. - 16. október 2022. Seðlabankastjóri er fulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. Board of Governors), æðstu stofnun sjóðsins. Hann sat jafnframt fundi fjárhagsnefndar sjóðsins (e. International Monetary and Financial Committee, IMFC).

Seðlabankastjóri og aðrir fulltrúar bankans áttu einnig fundi með yfirstjórn og sérfræðingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, kjördæmi Norður- og Eystrasaltslanda hjá sjóðnum, matsfyrirtækjum, fjármálafyrirtækjum og sendinefndum annarra ríkja.

Fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins heldur fund tvisvar á ári þar sem sjóðurinn kynnir mat sitt á ástandi og horfum í heimsbúskapnum, fjármálastöðugleika og ríkisfjármálum, auk þess sem framkvæmdastjóri sjóðsins kynnir stefnuyfirlýsingu sjóðsins (e. Global Policy Agenda).

Í stefnuyfirlýsingu sjóðsins kemur fram að forgangsraða þurfi stefnumálum á nýjan leik til að mæta breyttum veruleika. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi komið aðildarlöndum til aðstoðar með margvíslegum hætti síðustu tvö ár í kjölfar COVID-kreppunnar, m.a. með neyðarfjármögnun og sögulegri úthlutun sérstakra dráttarréttinda (SDR). Nú standi alþjóðahagkerfið frammi fyrir nýrri kreppu og þá muni sjóðurinn halda áfram að styðja við aðildarlönd með lánum, stefnumótandi ráðgjöf og tæknilegri aðstoð.

Hér er að finna stefnuyfirlýsingu sjóðsins: The Managing Director's Global Policy Agenda, Annual Meetings 2022: Act Now, Act Together for a More Resilient World.

Vegna stríðsins í Úkraínu tókst fjárhagsnefndinni ekki að sammælast um yfirlýsingu á fundinum. Í stað hennar gaf formaður nefndarinnar út yfirlýsingu sem studd var af fulltrúum flestra ríkja. Ýmis áföll hafa dunið samtímis á heimsbyggðinni sem fram kemur m.a. í versnandi hagvaxtarhorfum, mikilli verðbólgu og hækkandi skuldastöðu. Þörf væri á samstilltu átaki þjóða til að verja efnahags- og fjármálastöðugleika í heiminum. Hægt er að lesa yfirlýsinguna hér: Chair's Statement Forty-Sixth Meeting of the IMFC

Fulltrúi kjördæmis Norður- og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefndinni var að þessu sinni Mikael Damberg, fjármálaráðherra Svíþjóðar. Yfirlýsingu kjördæmisins (e. IMFC Statement) má sjá hér: IMFC Statement by Mikael Damberg, Minister of Finance, Sweden, on behalf of Denmark,  Republic of Estonia, Finland, Iceland, Republic of Latvia, Republic of Lithuania, Norway, and Sweden


Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri verðlaunaður fyrir góða frammistöðu

Í tengslum við ársfundinn var haldin athöfn á vegum fjármálatímaritsins Global Finance, þar sem bönkum og forystufólki þeirra voru veitt verðlaun fyrir góða frammistöðu að undanförnu. Meðal verðlaunahafa var Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Hann var talinn skara fram úr meðal stjórnenda seðlabanka og fékk hæstu mögulegu einkunn fyrir frammistöðu sína. Ásgeir var eini seðlabankastjórinn á heimsvísu sem Global Finance gaf einkunnina A+ sem er hæsta einkunn sem ritið hefur gefið í tuttugu ár. Verðlaunin fékk Ásgeir m.a. fyrir að vera fyrsti vestræni seðlabankastjórinn til að grípa til aðhalds í peningamálum snemma árs 2021 og fylgja þeirri stefnu ákveðið eftir auk þess að grípa til annarra ráðstafana, svo sem herðingar lánþegaskilyrða.

Hægt er að fletta Global Finance ritinu hér: Central Banker Report Cards 2022

Skýringartextar með myndum:
Á annarri myndinni má sjá Joseph Giarraputo, stofnanda og aðalritstjóra Global Finance afhenda Ásgeiri Jónssyni verðlaunin. Á hinni myndinni má sjá hluta íslenskra þátttakenda á fundunum, frá vinstri talið: Guðrún Ögmundsdóttir, fulltrúi Íslands á kjördæmisskrifstofu Norður- og Eystrasaltslanda hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington, Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri í Seðlabankanum.


Til baka

Myndir með frétt