Ný rannsóknarritgerð um samhengi menntunarstigs og neysluhneigðar frá vöggu til grafar
Seðlabanki Íslands hefur gefið út rannsóknarritgerðina „Mapping educational disparities in life-cycle consumption“ sem Þorsteinn Sigurður Sveinsson, hagfræðingur á sviði hagfræði og peningastefnu í Seðlabankanum, skrifaði ásamt Svend E. Hougaard Jensen, Sigurði P. Ólafssyni og Gylfa Zoega. Í ritgerðinni eru notuð gögn úr skattskýrslum allra landsmanna árin 2005-2019 til þess að rannsaka hvernig tekjur og neysla þróast yfir ævi fólks með menntun á mismunandi námsstigi.
Þetta tímabil nær yfir fjármálaáfallið 2008 en í kringum það voru talsverðar sveiflur í ráðstöfunartekjum. Einnig er rannsakað hvernig jaðarneysluhneigð (breyting í neyslu þegar tekjur breytast) fylgir menntunarstigi. Helstu niðurstöður eru þær að einstaklingar með háskólamenntun jafna neyslu (e. consumption smoothing) meira yfir ævina en aðrir. Þá er jaðarneysluhneigð að jafnaði lægri meðal þeirra sem hafa hærra menntunarstig, þ.e. neysla þeirra breytist minna en annarra við tekjubreytingar. Þeir sem hafa lokið námi á framhaldsskólastigi hafa lægri jaðarneysluhneigð en þeir sem hafa einungis lokið grunnskólaprófi og þeir háskólamenntuðu hafa að sama skapi lægstu jaðarneysluhneigðina. Niðurstöður ritgerðarinnar benda því til að hærra menntunarstig dempi hagsveiflur.
Sjá ritið hér: Mapping educational disparities in life-cycle consumption