logo-for-printing

06. desember 2022

Sjónarmið varðandi grænþvott og viðmiðunarreglur um notkun sjálfbærnitengdra hugtaka

Bygging Seðlabanka Íslands
Evrópsku eftirlitsstofnanirnar EBA, EIOPA og ESMA hafa á vefsetrum sínum kallað eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila um grænþvott í þeirri viðleitni að skilja helstu eiginleika, drifkrafta og áhættu í tengslum við grænþvott. Einnig er ætlunin að afla upplýsinga um hugsanlegar aðferðir við grænþvott. Hægt verður að koma sjónarmiðum á framfæri til 10. janúar 2023.

Framlag þátttakenda í þessari upplýsingaöflun eftirlitsstofnananna mun rata í framvinduskýrslu stofnananna sem verður afhent framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og birt í maí 2023 en lokaskýrsla er fyrirhuguð í maí 2024. Seðlabankinn hvetur eftirlitsskylda aðila og aðra áhugasama aðila að láta sig málið varða.

Þá óskar Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (ESMA) eftir sjónarmiðum og umræðu við gerð draga að viðmiðunarreglum um notkun á UFS og/eða sjálfbærnitengdum hugtökum í nafngiftum sjóða. Heiti sjóða eru notuð í markaðslegum tilgangi og til þess að reisa skorður við grænþvotti telur ESMA að á bak við UFS og sjálfbærnitengd orð eða hugtök í nöfnum sjóða þurfi meðal annars tiltekið hlutfall eignasafna að endurspegla þau einkenni sem heiti sjóða gefa til kynna.

Viðmiðunarreglunum er meðal annarra ætlað að ná til rekstraraðila sérhæfðra sjóða og rekstrarfélaga verðbréfasjóða.
Til baka