logo-for-printing

03. janúar 2023

Nýjar reglur um lausafjárhlutfall lánastofnana

Bygging Seðlabanka Íslands

Hinn 1. janúar 2023 tóku gildi nýjar reglur um lausafjárhlutfall lánastofnana, nr. 1520/2022. Samhliða féllu úr gildi reglur nr. 266/2017, um sama efni.

Með nýjum reglum er innleitt 80% lágmarks lausafjárhlutfall í evrum fyrir lánastofnanir, þar sem skuldbindingar í evrum nema 10% eða meira af heildarskuldbindingum viðkomandi lánastofnunar. Samhliða nýjum kröfum um lausafjárhlutfall í evrum hefur 100% lausafjárhlutfall í öllum erlendum gjaldmiðlum samtals verið fellt brott. Samkvæmt nýjum reglum gildir áfram lausafjárhlutfall að lágmarki 100% í öllum gjaldmiðlum samtals, í samræmi við reglugerð (ESB) 2015/61. Einnig er áfram gerð krafa um að lánastofnanir uppfylli að lágmarki 50% lausafjárhlutfall í íslenskum krónum.

Í reglugerð (ESB) 2015/61 er að finna heimild til að setja lausafjárkröfur í einstaka gjaldmiðlum sem ná tilteknum viðmiðunarmörkum, þ.e. í þeim gjaldmiðlum þar sem skuldbindingar eru jafnar eða umfram 5% af heildarskuldbindingum lánastofnunar. Eins og fyrr segir er með nýjum reglum innleitt 80% lágmarks lausafjárhlutfall í evrum fyrir lánastofnanir þar sem skuldbindingar í evrum nema 10% eða meira af heildarskuldbindingum viðkomandi lánastofnunar. Sérstakar lausafjárkröfur í einstökum erlendum gjaldmiðlum hafa það að markmiði að draga úr lausafjáráhættu lánastofnana með því að stuðla að því að þær eigi ávallt laust fé í tilteknum gjaldmiðli til að mæta skuldbindingum við álagsaðstæður á tilteknu tímabili í sama gjaldmiðli. Eðlilegt er að miða við að lánastofnanir búi alla jafna yfir lausu fé á móti skuldbindingum ef heildarskuldbindingar í viðkomandi gjaldmiðli fara umfram ákveðið hlutfall af heildarskuldum lánastofnunarinnar. Hæfilegt er að svo stöddu að miða við að lánastofnanir eigi lausafjárforða í þeim gjaldmiðlum sem nema verulegum hluta af heildarskuldbindingum viðkomandi aðila. Í þessu tilliti er talið hæfilegt að miða við skuldbindingar í þeim gjaldmiðlum sem nema a.m.k. 10% af heildarskuldbindingum lánastofnunar. Það eru fyrst og fremst evrur sem ná þessum viðmiðunarmörkum hjá innlendum lánastofnunum.

Við ákvörðun um hæfilegt lausafjárhlutfall fyrir evrur er litið til mikilvægis þess að veita lánastofnunum svigrúm til að haga samsetningu lausafjáreigna í samræmi við ríkjandi markaðsaðstæður hverju sinni. Markaðir sem notast við evrur eru aðgengilegir og virkir og ætti alla jafna að reynast auðvelt að nálgast hágæðalausafjáreignir í evrum með tiltölulega skömmum fyrirvara.

Mikilvægt er þó að árétta að lánastofnanir þurfa áfram að fullnægja almennu samræmi í gjaldmiðlasamsetningu fyrir alla gjaldmiðla sem eru yfir 5% viðmiðunarmörkum, sbr. 6. mgr. 8. gr. fyrrnefndrar reglugerðar (ESB) 2015/61.

Reglur 1520/2022 má finna hér: Reglur 1520/2022 á vef Stjórnartíðinda.


Til baka