logo-for-printing

08. febrúar 2023

Yfirlýsing peningastefnunefndar 8. febrúar 2023

Peningastefnunefnd
Peningastefnunefnd

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 6,5%.

Verðbólga jókst í janúar og mældist 9,9% en undirliggjandi verðbólga hélst óbreytt í 7%. Þótt tekið hafi að hægja á húsnæðismarkaði og alþjóðleg verðbólga hafi minnkað lítillega er verðbólguþrýstingur enn mikill og verðhækkanir á breiðum grunni.

Verðbólguhorfur hafa versnað frá síðasta fundi nefndarinnar og þótt verðbólga hafi líklega náð hámarki tekur lengri tíma að ná henni niður í verðbólgumarkmið bankans en áður var talið. Lakari horfur skýrast einkum af því að nýgerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði fela í sér töluvert meiri launahækkanir en þá var gert ráð fyrir. Einnig hefur gengi krónunnar lækkað og útlit er fyrir meiri framleiðsluspennu á spátímanum. Við þetta bætist að útlit er fyrir að aðhald fjárlaga verði minna en gert var ráð fyrir í nóvemberspá bankans þrátt fyrir að dragi úr hallarekstri ríkissjóðs í ár. Verðbólguvæntingar til lengri tíma eru enn vel yfir markmiði og raunvextir bankans hafa lækkað frá síðasta fundi.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans var hagvöxtur í fyrra 7,1% sem er töluvert meira en gert var ráð fyrir í nóvember og yrði mesti hagvöxtur á einu ári síðan árið 2007 gangi spáin eftir. Horfur eru á minni hagvexti í ár en þó áfram búist við töluverðri spennu á vinnumarkaði.

Peningastefnunefnd telur líklegt að auka þurfi aðhaldið enn frekar á næstunni til þess að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma.

Frétt nr. 4/2023
8. febrúar 2023

Vextir verða því sem hér segir:

1. Daglán 8,25%
2. Lán gegn veði til 7 daga 7,25%
3. Innlán bundin í 7 daga 6,50%
4. Viðskiptareikningar 6,25%

Vextir og bindiskylda við Seðlabanka Íslands 8. febrúar 2023

 

Til baka