logo-for-printing

19. apríl 2023

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2023

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tók þátt í vorfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 12. til 16. apríl 2023 í Washington DC, ásamt Gunnari Jakobssyni varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika og öðrum fulltrúum Seðlabankans. Gunnar Jakobsson tók einnig þátt í hringborðsumræðum á vegum hugveitunnar OMFIF um rafrænt reiðufé en þátttakendur þar voru fulltrúar seðlabanka og fjölþjóðlegra stofnana.

Á vorfundum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins koma saman fulltrúar seðlabanka, fjármála- og efnahagsráðuneyta, einkafyrirtækja, félagasamtaka og fræðasamfélagsins til að ræða m.a. stöðu og horfur í efnahagsmálum, þróun heimsmála, helstu áskoranir framundan og skilvirkni efnahags- og þróunaraðgerða.

Í tengslum við vor- og ársfundi sína gefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn út skýrslur um efnahagsmál og fjármálastöðugleika, auk svæðisbundinna úttekta.

Elisabeth Svantesson, fjármálaráðherra Svíþjóðar, var að þessu sinni fulltrúi Norður- og Eystrasaltslandanna í fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (International Monetary and Financial Committee, IMFC). Málefni tengd stríðinu í Úkraínu voru enn ofarlega á baugi á fundi nefndarinnar og í yfirlýsingu Svantessons fyrir hönd landanna kemur m.a. fram að stríðið hafi grafið undan fæðu- og orkuöryggi og valdið auknum erfiðleikum fyrir lágtekjulönd sem einnig standa frammi fyrir miklum skuldavanda. Þá var lögð áhersla á mikilvægi þess að verja fjölþjóðlegt samstarf á grundvelli viðurkenndra leikreglna nú þegar hætta hefur aukist á alþjóðlegri sundrungu. Hægt er að lesa yfirlýsingu Svantessons í heild hér: Yfirlýsing kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltslanda í fjárhagsnefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.


Ekki náðist samstaða um orðlag um stríðið í Úkraínu í yfirlýsingu fjárhagsnefndarinnar. Af þeim sökum gaf formaður nefndarinnar út yfirlýsingu í eigin nafni sem studd var af langflestum fulltrúum nefndarinnar. Þar kom fram að þrátt fyrir nokkurn viðnámsþrótt í alþjóðlegu efnahagslífi sé alþjóðlegur hagvöxtur veikburða og að hætta á neikvæðri þróun hafi aukist. Þá kom fram að forgangsviðfangsefni aðildarlandanna væru að draga úr verðbólgu og tryggja fjármálastöðugleika, byggja upp svigrúm í ríkisfjármálum ásamt því að tryggja stöðu hinna verst settu og stuðla að hagvexti á breiðum grunni til lengri tíma. Hægt er að lesa yfirlýsinguna hér: Yfirlýsing formanns fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMFC).

Helstu stefnumál sjóðsins voru kynnt í stefnuyfirlýsingu Kristalinu Georgievu, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (Global Policy Agenda, GPA). Þar var m.a. lögð áhersla á mikilvægi þess að leggja grunn að auknum og sjálfbærum hagvexti með því að tryggja efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og styðja við viðkvæm lönd með aukinni alþjóðlegri aðstoð og tryggja velferð til framtíðar með því að takast sameiginlega á við loftslagsbreytingar og stuðla að útbreiðslu stafrænna lausna. Hægt er að lesa stefnuyfirlýsinguna hér: Stefnuyfirlýsing framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (GPA).

Seðlabankastjóri, ásamt öðrum fulltrúum Seðlabankans og fjármála- og efnahagsráðuneytis, átti einnig fundi með yfirmönnum og starfsfólki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fjármálafyrirtækja og matsfyrirtækja. Þar má nefna fund með Bo Li, aðstoðarframkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Alfred Kammer, yfirmanni Evrópudeildar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Tobias Adrian, fjármálaráðgjafa (e. financial counsellor) og yfirmanni fjármálamarkaðssviðs Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Seðlabankastjóri tók einnig þátt í hringborði á vegum Columbia-háskóla í New York 17. apríl. Yfirskrift hringborðsins var Áskoranir og viðbrögð tengd verðbólgu og þróun alþjóðlegra stjórnmála.

Hér fyrir neðan má finna aðra tengla á efni tengt vorfundinum:

Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2023 (ýmislegt efni).

World Economic Outlook  

Global Financial Stability Report 

Fiscal Monitor 

Tengill í bloggsíður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins   


Til baka