logo-for-printing

24. apríl 2023

Eldra viðmóti og vefþjónustu skýrsluskilakerfis Seðlabankans verður lokað 15. maí næstkomandi

Bygging Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands hefur unnið að einföldun og umbótum fyrirkomulags gagnaskila til bankans. Hinn 15.maí nk. verða öll notendanöfn og lykilorð til innskráningar í eldri skilaviðmót (tól (e. client) með heitið SÍ Gagnaskil) og eldri vefþjónustu SÍ (https://ftps.sedlabanki.is/Gagnaskil) gerð óvirk og verður þeim kerfum þar með lokað. Þeir aðilar sem enn nýta þessi kerfi eru hvattir til að gera viðeigandi ráðstafanir tímanlega og stofna aðgang í nýrri skilakerfum Seðlabanka Íslands svo fljótt sem auðið er til að forðast óþægindi.

Þetta er þáttur í innleiðingu nýrra gagnaskilakerfa sameinaðrar stofnunar, en helstu vörður á þeirri vegferð eru eftirfarandi:

  • Maí 2021 – nýtt gagnaskilaviðmót sameinaðrar stofnunar opnað
  • Júní 2021 – ný vefþjónusta sett í rekstur
  • September 2021 – eldra skilaviðmóti FME lokað
  • Maí 2022 – eldri vefþjónustu FME lokað
  • Maí 2023 – eldra skilaviðmóti og vefþjónustu SÍ lokað

Nýja gagnaskilakerfið sem opnað var í maí 2021 ásamt vefþjónustunni sem opnuð var mánuði síðar hafa þá að fullu tekið við hlutverki eldri gagnamóttökukerfa fyrirrennara sameinaðrar stofnunar.

Nýju kerfin sem byggja á innskráningu með rafrænum skilríkjum mæta auknum kröfum um öryggi og rekjanleika í gagnasamskiptum. Þó að kerfin séu komin í rekstur eru þau enn í virkri þróun og munu skilaaðilar sjá ýmsa nýja virkni bætast við á komandi mánuðum.

Framundan er áframhaldandi vinna við sameiningu bakenda og gagnaskilaumsjónarkerfa Seðlabankans. Unnið verður að því smátt og smátt á þessu ári að færa öll skilatilvik undir einn hatt í sameinuðu gagnaskilaumsjónarkerfi og verður tilhögun flutnings skilatilvika milli kerfa nánar tilkynnt skilaaðilum hvers tilviks um sig eftir því sem skilatilvikin eru færð og fá ný auðkenni.

Seðlabanki Íslands tekur gjarnan við endurgjöf og umbótatillögum skilaaðila sem eru til þess fallnar að gera kerfin notendavænni og skilvirkari. Skilaaðilar eru hvattir til að koma ábendingum og tillögum á framfæri með pósti á netfang þjónustuborðs SÍ, adstod@sedlabanki.is.

Til baka