logo-for-printing

01. júní 2023

Upplýsingaöflun fyrir grunninnvið innlendrar, óháðrar smágreiðslulausnar

Skjaldarmerki Íslands

Seðlabanki Íslands leiðir vinnu við að innleiða innlenda, óháða smágreiðslulausn hér á landi sem byggist á greiðslum milli greiðslureikninga og skal að lágmarki tryggja greiðslumiðlun fyrir matvöru eldsneyti og lyf eins og nánar er lýst í umræðuskýrslu um efnið sem er aðgengileg á vef bankans. Vinnan fer fram í vinnuhópi með innlánsstofnunum sem stofnaður var af framtíðarvettvangi en það er vettvangur sem settur var á fót af Seðlabanka Íslands fyrir framtíðarstefnumótun fyrir fjármálainnviði í landinu.

Vinnu við innlenda, óháða smágreiðslulausn hefur verið skipt í tvo þætti. Annars vegar grunninnvið sem er miðlæg lausn fyrir greiðslufyrirmæli og hins vegar lausn fyrir neytendur sem tekur á móti og sendir fyrirmæli í gegnum grunninnvið.

Grunninnviðurinn skal vera opinn öllum sem hafa tilskilin leyfi frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands til að bjóða upp á greiðsluvirkjun og uppfylla tækni- og öryggiskröfur tilvonandi skema. Grunninnviðurinn skal hafa samræmda nálgun í auðkennis- og öryggistækni gagnvart innlánsstofnunum og vera hýstur innanlands.

Vinnuhópur framtíðarvettvangs leitar að upplýsingum um mögulegar lausnir sem geta nýst við innleiðingu á grunninnviði fyrir innlenda óháða, smágreiðslulausn og samtali við aðila sem geta boðið fram mögulegar lausnir fyrir grunninnvið.

Áhugasamir eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við fyrsta tækifæri með því að senda tölvupóst á netfangið fv@gv.is og eigið síðar en 25. júní 2023. Stefnt er að því að hefja samtöl við aðila sem fyrst og ljúka þeim fyrir júnílok. Ef frekari upplýsinga er óskað skal senda fyrirspurn á framangreint netfang.

Athygli er vakin á því að einungis er verið að leita eftir upplýsingum um mögulegar lausnir án skuldbindingar af hálfu aðila.


Til baka