logo-for-printing

01. júní 2023

Úthlutun úr menningarsjóði tengdum nafni Jóhannesar Nordals

Styrkþegar ásamt seðlabankastjóra, formanni úthlutunarnefndar og formanni bankaráðs Seðlabanka Íslands
Styrkþegar ásamt seðlabankastjóra, formanni úthlutunarnefndar og formanni bankaráðs Seðlabanka Íslands
Í gær fór fram tólfta úthlutun úr menningarsjóði sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordals, fyrrverandi seðlabankastjóra. Menningarstyrknum er fyrst og fremst ætlað að styðja viðleitni einstaklinga og hópa sem miðar að því að varðveita menningarverðmæti lands og þjóðar sem núverandi kynslóð hefur fengið í arf. Í ár barst 31 umsókn um styrkinn. Verkefnin í ár eru afar fjölbreytt að venju en ákvörðun var tekin um að veita í 5 milljónum króna samtals í styrkina. Fleiri verkefni en áður hljóta því styrkinn að þessu sinni en 5 verkefni urðu fyrir valinu. Úthlutunarnefnd, skipuð Hildi Traustadóttur, varafulltrúa í bankaráði Seðlabanka Íslands, sem er formaður nefndarinnar, Jóni Þ. Sigurgeirssyni, efnahagsráðgjafa í menningar- og viðskiptaráðuneyti, og Guðrúnu Nordal, forstöðumanni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, valdi styrkþegana í ár.

Björn Þrándur Björnsson hlýtur 1,5 milljónir króna í styrk til verkefnisins Ásgerður Búadóttir – Catalogue raisonné – Ásgerðarsafn.is en Björn Þrándur er sonur Ásgerðar. Markmið verkefnisins er að byggja upp heildarverkaskrá og samtímis skapa aðgengilegan vettvang – Ásgerðarsafn.is – sem hefur að geyma allar upplýsingar um list og feril Ásgerðar Búadóttur. Ásgerður var frumkvöðull nútímavefjalistar á Íslandi en ferill hennar sem listvefari spannaði hálfa öld.

Sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri fær einnig 1,5 milljónir króna. Verkefnið sem hlýtur styrkinn kallast Skoffín og skringilmenni og er örópera sem samin er fyrir nemendur í grunnskólum á Norðurlandi. Höfundur og tónskáld er Þórunn Guðmundsdóttir en verkið fléttar saman íslenskar þjóðsögur tengdar áramótunum og þrettándanum. Verkefni tengd þeim þjóðsögum sem um ræðir verða jafnframt send á grunnskólana svo börnin tengist þjóðsögunum og fái tækifæri til að vinna með efniviðinn.

Hjalti Snær Ægisson hlýtur einnar milljónar króna styrk til verkefnisins Bessastaðaþýðingarnar. Verkefnið felst í því að gefa út fjórar þýddar bækur á sviði klassískra mennta, eða þrjár þýðingar úr forngrísku og eina úr latínu. Verkin eru Alkíbíades I-II eftir Platon, Minningar um Sókrates eftir Xenófón, Um skyldur eftir Cicero og Fjórar ævisögur eftir Plútarkos. Textarnir eru allir byggðir á skólaþýðingum úr Bessastaðaskóla sem varðveittar eru í handritum á Landsbókasafni Íslands en verkefnið snýst um að uppfæra þær þýðingar og lagfæra. Markmiðið er að gera textana aðgengilega í heild fyrir nútímalesendur.

Andri Kjartan Andersen hlýtur hálfrar milljónar króna styrk til verkefnisins Íslenskar sögur en það er myndasögusería sem færir ýmsar merkustu sögur Íslands í nýjan búning með það að markmiði að uppfæra þá sagnaarfleifð í takt við nútímann. Tilgangur verkefnisins er fyrst og fremst að kynna þjóðsögurnar fyrir yngri kynslóðum en bækurnar munu einnig vera þýddar á ensku og þannig aðgengilegar fleirum.

Þá hlýtur félagið Hákarlar við Ísland hálfrar milljónar króna styrk til verkefnisins Hákarlar í skólastofunni. Verkefnið á að veita skólabörnum fræðslu um mikilvægi Grænlandshákarla við Ísland í náttúrulegu og menningarlegu tilliti. Skólar verða heimsóttir og miðlað almennri þekkingu um líf- og vistfræði hákarla á Íslandsmiðum, samhliða því að kynna hvernig samspili Íslendinga og hákarla hefur verið háttað í gegnum aldirnar en verkefninu er ætlað að skila sögu hákarla og manna til yngri kynslóðarinnar, um leið og stuðlað er að því að efla tengsl hennar við sjóinn og vistkerfi hans. Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttur tók við styrknum fyrir hönd félagsins Hákarlar.

Jóhannes Nordal, sem menningarstyrkirnir eru kenndir við, lést 5. mars síðastliðinn, 98 ára að aldri. Hann var seðlabankastjóri manna lengst, eða í 32 ár. Þess má geta að Jóhannes hafði í öll fyrri 11 skipti verið viðstaddur úthlutanir styrksins.
Til baka