logo-for-printing

04. september 2023

Svæðisbundin úttekt varðandi aðgerðir gegn peningaþvætti

Birt hefur verið skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um svæðisbundna úttekt á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum á flæði fjármuna, eftirliti með aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og fjármálastöðugleika. (IMF Regional Nordic-Baltic Technical Assistance Report on Financial Flows Analysis, AML/CFT Supervision, and Financial Stability).

Um er að ræða tæknilega aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í samstarfi við stjórnvöld hér á landi og í Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Lettlandi, Litháen, Noregi og Svíþjóð til auka frekar en orðið er skilvirkni umgjarðar um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, bæði á landsvísu og svæðisbundið í umræddum ríkjum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn notaði svokallað vélnám til að skilja betur hættu á peningaþvætti yfir landamæri, greindi næmni aðgerða gegn peningaþvætti til að bregðast við þessari áhættu, setti fram ráðleggingar til að auka skilvirkni aðgerða og kannaði möguleg áhrif peningaþvættismála á fjármálastöðugleika.

Í skýrslunni er bent á að stöðug viðleitni til að styrkja umgjörð aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sé skýrt forgangsverkefni á svæðinu og að samræmdar aðgerðir og stöðug framþróun lausna séu lykilatriði til að sporna gegn vaxandi áhættu sem steðji að heilbrigði fjármálakerfisins (e. financial integrity). Nánar tiltekið mælir skýrslan með viðvarandi eftirliti með fjármagnsflæði yfir landamæri, með svæðisbundnum upplýsingaskiptum um undirliggjandi efnahagslega þróun og betri auðkenningu á löndum með hugsanlega peningaþvættisáhættu fyrir Norður- og Eystrasaltslönd. Til að styrkja áhættumiðað eftirlit með aðgerðum gegn peningaþvætti, kallar skýrslan eftir aukinni söfnun gagna yfir landamæri og viðbótarfjárfestingum í háþróuðum gagnagreiningartækjum, auk samræmdra eftirlitsaðgerða fyrir banka í mestri áhættu. Að lokum er mælt með áframhaldandi greiningu á áhrifum efnahagsbrota á fjármálastöðugleika til að auka viðnámsþrótt fjármálakerfisins gegn peningaþvættisáföllum.

Seðlabanki Íslands telur greiningu og niðurstöðu verkefnisins gagnlega og vonast til að með útgáfu þessarar skýrslu geti einkageirinn og önnur lönd dregið mikilvægan lærdóm af bæði reynslu og góðum starfsháttum á svæðinu. Seðlabanki Íslands vinnur stöðugt að frekari úrbótum er varðar eftirlit með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og aðgerðaráætlun bankans er í samræmi við tillögur í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar má nefna frekari þróun í áhættumati og áhættumiðuðu eftirliti, nýtingu upplýsinga um fjármagnsflæði inn í áhættumat ásamt frekari greiningu á upplýsingum um fjármagnsflæði yfir landamæri.

Sérfræðingar í fjármálastöðugleika og aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum munu í sameiningu vinna að því fara að tillögum sjóðsins til að styrkja enn frekar stöðu ríkjanna á svæðinu til að berjast gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á fjármálamarkaði.

Samhliða útgáfu skýrslunnar fer fram vefútsending þar sem fulltrúar seðlabanka og fjármálaeftirlita Norðurlandanna og Eystrarsaltsríkjanna fjalla um úttektina og efni skýrslunnar: Útsending á vef sænska seðlabankans.

Til baka