logo-for-printing

20. september 2023

Yfirlýsing fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands 20. september 2023

Fjármálastöðugleikanefnd ásamt ritara nefndarinnar
Fjármálastöðugleikanefnd ásamt ritara nefndarinnar

Fjármálakerfið hér á landi stendur traustum fótum. Eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka er sterk. Bankarnir hafa með skuldabréfaútgáfu á síðustu mánuðum dregið úr endurfjármögnunaráhættu í erlendum gjaldmiðlum. Álagspróf benda til að bankarnir búi yfir góðum viðnámsþrótti til að styðja við heimili og fyrirtæki ef þörf krefur. Vanskil útlána eru lítil og á heildina litið virðist staða lántakenda vera góð. Í ljósi þessa ákvað nefndin að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5%.

Hraður efnahagsbati hefur átt sér stað undanfarin tvö ár. Aukin umsvif hafa leitt til aukinna tekna hjá heimilum og fyrirtækjum. Nú blasa við hægari efnahagsumsvif samfara versnandi fjármálaskilyrðum. Hækkun vaxta hefur þyngt greiðslubyrði, einkum þeirra sem tekið hafa óverðtryggð lán á breytilegum nafnvöxtum. Fastir nafnvextir lána sem hafa varið lántakendur fyrir vaxandi greiðslubyrði eru jafnframt að renna sitt skeið. Þetta felur í sér áskorun fyrir lántakendur og lánveitendur.

Fjármálastöðugleikanefnd brýnir fyrir lánveitendum að huga að þyngri greiðslubyrði lántakenda. Í því sambandi má nefna lausnir eins og lengingu lánstíma, jafngreiðsluskilmála, þak á greidda nafnvexti og önnur lánsform. Rúm eiginfjárstaða flestra lántakenda ætti að gefa svigrúm til að aðlaga greiðslubyrði að greiðslugetu og tryggja á sama tíma að hún haldist í takti við þau viðmið lánþegaskilyrða sem nefndin hefur sett. Nefndin beinir því einnig til lántakenda að fyrirbyggja mögulega erfiðleika með því að leita tímanlega til lánveitenda ef greiðslubyrði stefnir í að verða verulega íþyngjandi.

Nauðsynlegt er að halda áfram að styrkja net- og rekstraröryggi fjármálafyrirtækja og að auka viðnámsþrótt greiðslumiðlunar hér á landi. Nefndin telur að þau skref sem hafa verið stigin í átt að innlendri óháðri smágreiðslulausn séu jákvæð í því samhengi og tekur undir tillögur stjórnvalda um að treysta heimildir Seðlabankans á þessu sviði.

Fjármálastöðugleikanefnd mun áfram beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika hér á landi svo að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.

Frétt nr. 15/2023
20. september 2023


Til baka