logo-for-printing

04. október 2023

Yfirlýsing peningastefnunefndar 4. október 2023

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25%.

Á heildina litið hefur þróun efnahagsmála verið í samræmi við mat nefndarinnar á síðasta fundi. Verðbólga hefur aukist á ný og mældist 8% í september. Verðbólga án húsnæðis jókst einnig en undirliggjandi verðbólga hefur hjaðnað lítillega. Vísbendingar eru um að heldur hafi dregið úr tíðni verðhækkana og að þær séu ekki á eins breiðum grunni og áður. Þótt verðbólguvæntingar séu áfram of háar hafa þær lækkað á suma mælikvarða.

Hagvöxtur mældist 5,8% á fyrri hluta þessa árs en var ríflega 7% á síðasta ári. Nokkuð hefur því hægt á vexti efnahagsumsvifa og vísbendingar eru um að hægt hafi enn frekar á eftirspurn á þriðja fjórðungi ársins. Aftur á móti er enn nokkur spenna á vinnumarkaði og í þjóðarbúskapnum í heild. Raunvextir bankans hafa hins vegar hækkað það sem af er ári og áhrif vaxtahækkana bankans eru farin að koma fram í meira mæli.

Á þessum tímapunkti er nokkur óvissa um efnahagsframvinduna og hvort núverandi taumhald sé nægjanlegt. Nefndin hefur því ákveðið að staldra við en á næsta fundi mun liggja fyrir ný þjóðhags- og verðbólguspá bankans. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

 

Frétt nr. 16/2023
4. október 2023

Vextir verða því sem hér segir:
1. Daglán 11,0%
2. Lán gegn veði til 7 daga 10,0%
3. Innlán bundin í 7 daga 9,25%
4. Viðskiptareikningar 9,0%

Sjá nánar:

Vextir og bindiskylda við Seðlabanka Íslands 4. október 2023.

Til baka